Á sunnudaginn kemur munu Íslendingar, ásamt stórum hluta heimsbyggðarinnar, setjast við matarborðið til að gæða sér á dýrindis páskamat með vinum og vandamönnum. Sumir verða með lambakjöt á boðstólnum á meðan aðrir verða kannski með hrygg.
Þegar kemur að hágæðamat er líka mikilvægt að hafa í huga hvers konar vín er gott að hafa á borðinu þar sem mismunandi tegundir henta mismunandi mat.
Sigurður Lárus Hall, betur þekktur sem Siggi Hall, og sonur hans, Óli Hall, spjölluðu við blaðamann Viðskiptablaðsins sem vildi fá að vita hvað sérfræðingar í matargerð mæla með þegar kemur að víni.
Að mati Sigga á spænskt vín mjög vel heima með lambakjöti. Hann segir að Reserva-vín og Rioja séu þá sérstaklega góðir valkostir.
„Það fer líka eftir því hvernig þú eldar lambið. Ef þú ert að elda það með fíngerðum hætti þá eru mörg ítölsk vín góð. Svo gleymist líka að frönsku Bordeaux-vínin eru frábær með lambakjöti eins og Margaux og Stephanie Rivin.“
Óli bætir við og segir að þar sem um er að ræða páska og hátíðarhald þá megi fólk kaupa sér aðeins fínni og dýrari vín en það myndi vanalega gera.
Feðgarnir bæta við að margir séu líka mjög hrifnir af Rosé Prosecco og séu þau vín sérstaklega vinsæl hjá kvenfólki og yngri kynslóðinni. „Stelpurnar drekka Rosé Prosecco bara eins og appelsín og svo er Rosé kampavín líka svakalega gott.“