Willum Þór Willumsson á sex ára atvinnumannaferil að baki í Belarús, Hollandi og Englandi. Síðastliðið sumar færði Willum sig um set til Englands, til Birmingham City í ensku C-deildinni.
C-deildin í Bretlandi er afar skemmtileg í ár. Þar má sjá stór lið með mikla sögu úr efstu deild, þar á meðal Bolton, Charlton, Reading og Wigan sem vann FA Cup árið 2013 eftir úrslitaleik gegn Man City.
Einnig má þar finna velska liðið Wrexham sem var keypt árið 2020 af Hollywood-stjörnunum Ryan Reynolds og Rob McElhenney á tvær milljónir punda.
„Þetta er skemmtileg deild og það kom mér alveg á óvart hvað langflestir vellirnir eru flottir. Það er mikið um stórlið í deildinni og alvöru umgjörð í kringum leikina,“ segir Willum.
Á sama tíma og þetta er skemmtilegt þá er þetta líka krefjandi. Maður lendir oft í leikjum sem eru mikið hark, þar sem lið spila mikið upp á föst leikatriði, spila fimm í vörn og verjast. Það geta verið mjög erfiðir leikir inn á milli,“ bætir Willum við.
Willum segir það skýra kröfu hjá aðdáendum og stjórn Birmingham City að liðið fari beint aftur upp í B-deild. Tvö efstu lið deildarinnar fara beint upp, en liðin í 3.- 6. sæti leika í umspili um þriðja lausa sætið í B-deild.
„Það er ekkert annað í boði. Það er allt gert fyrir okkur, umgjörðin er þannig að það er allt til alls og maður getur ekki kvartað yfir neinu. Við eigum að fara upp, og helst beint upp.“
Nánar er rætt við Willum í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í gærmorgun, mánudaginn 30. desember. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og viðtalið í heild sinni hér.