Samdráttur í bílasölu á síðasta ári nam um 42% miðað við sama tíma árið á undan. Kostnaður vegna rafbíla tók miklum breytingum í byrjun árs 2024 þegar ívilnanir vegna greiðslu á virðisaukaskatti féllu niður. Þá settu stjórnvöld á 6 krónu gjald fyrir hvern ekinn kílómetra fyrir hreina rafbíla og 2 krónur fyrir tengiltvinnbíla.
Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, svarar spurningum um stöðuna á bílamarkaðnum.
Efnahagsumhverfið var þungt í fyrra, verðbólga og háir vextir. Eru fleiri skýringar á samdrætti í bílasölu árið 2024?
,,Vextir og verðbólga og bið eftir að hvoru tveggja færu að kólna eða lækka voru stærstu þættirnir sem skýra sölu ársins 2024. En það voru margir fleiri atburðir á árinu t.d. eldgosin á Reykjanesi og einhver hiksti í bókunum ferðalaga til Ísland á fyrri hluta ársins. Einnig hafði umræða um breytingar á umhverfi rafbíla áhrif og það tók tíma fyrir fólk að skilja nýtt kerfi. Það var í raun ekki mikil breyting því stuðningur við rafbíla fór aðeins niður um nokkur hundruð þúsund krónur og var 900.000 krónur allt árið. En markaðurinn skynjaði það sem mun stærri breytingu og það dró úr áhuga. En lykiláhrifin komu frá vöxtum, verðbólgu og óvissu í kringum Reykjanesið,“ segir Jón Trausti.
Hvernig leggst nýja árið í þig og hvenær telur þú að bílasala taki við sér?
,,Árið leggst vel í mig. Ég er bjartsýnn á að vextir lækki jafnt og þétt og við munum fljótlega sjá verðbólguna undir 4% sem eru mjög góðar fréttir. Mér finnst bílasala nú þegar vera byrjuð að taka við sér. Nóvember og desember voru ágætismánuðir og við hjá Öskju erum með mikið forselt næstu vikur og mánuði. Ef við sjáum þessa þróun halda áfram þá mun bílasala vaxa í ár og ég held að markaðurinn fari upp þegar líða tekur árið. Fyrstu mánuðir verða líklega svipaðir og þeir voru í fyrra en svo tekur bílasala við sér,“ segir Jón Trausti.
Hvað skýrir samdrátt í sölu rafbíla og hvernig heldur þú að salan muni þróast í ár?
,,Samdráttur á heildarmarkaði skýrist að langmestu leyti af því að bílaleigur voru stór hluti heildarmarkaðar í fyrra. Þær tóku mjög fáa rafbíla á árinu 2024 sem er ekki gott því við viljum sjá rafbíla koma til endursölu út á markaðinn frá þeim. En hvað einstaklinga varðar þá var rafbíllinn langvinsælasti orkugjafinn og verður það líka á þessu ári. Hlutdeild hans mun aukast á þessu ári og ég horfi á það þannig að það styttist hratt í að síðasti bensín- og díselbíllinn verði seldur. Ef við horfum á fyrstu vikur janúar þá er búið að skrá um 300 bíla á fyrstu vikum ársins, þar af voru aðeins 5 bensínbílar. Líklega kemur að því mjög fljótlega og í fyrsta skipti í sögu bílasölu á Íslandi að enginn bensínbíll verði skráður þann mánuðinn. Mitt mat er að það gerist á þessu eða næsta ári,“ segir Jón Trausti.
Nánar er fjallað um málið í Bílar, sérblaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.