Vínframleiðendur eru byrjaðir að skipta um gír þegar kemur að því að markaðssetja vörur sínar til yngri kynslóðarinnar. Meðal þeirra eru hvítvínstegundir sem innihalda minna áfengismagn og þar með færri hitaeiningar.
Fréttamiðillinn WSJ ræddi nýlega við nokkra vínframleiðendur sem segja að sífellt fleiri yngri neytendur vilji fá sér vínglas en þó án þess að þurfa að gjalda fyrir það daginn eftir.
Samkvæmt markaðsrannsóknarfyrirtækinu Circana hefur vínsala dregist saman þrjú ár í röð. Sala á léttvíni hefur hins vegar aukist frá 16 milljónum dala árið 2019 í 209 milljónir dala árið 2024.
Margar af þessum vinsælu tegundum kosta í kringum tvö þúsund krónur og eru með tæplega 80 hitaeiningar í hverju glasi, samanborið við 120 hitaeiningar sem finnast í venjulegu hvítvínsglasi.
Vínframleiðandinn Chateau Ste. Michelle í Woodinville í Washington-ríki í Bandaríkjunum setti til að mynda á markað 13 dala Chardonnay og Sauvignon Blanc fyrr á þessu ári. Fyrirtækið fjarlægir áfengið úr 30% af fullkláraða víninu og sameinar það við óbreytt vín til að varðveita bragðið.
„Neytendur undir 45 ára aldri eru að keyra þessa þróun áfram. Þeir hafa ekki eins mikinn áhuga á þessum hefðbundnu fullorðinsdrykkjum og vilja möguleika á að drekka á heilsusamlegri hátt,“ segir Kathy Pyrce, varaforseti markaðssviðs hjá Delicato í Napa í Kaliforníu.