Jeff Bitter, forstjóri Allied Grape Growers, hefur hvatt til þess að vínframleiðendur í Kaliforníu fjarlægi vínviði af nokkuð stóru svæði. Þetta er annað árið í röð sem Bitter hvetur til aðgerða til að koma til móts við minnkandi eftirspurn.
Þetta kemur fram í víntímaritinu Decanter en forstjórinn lét ummælin falla á Unified Wine & Grape-ráðstefnunni og nefndi þá nokkur tiltekin svæði í Kaliforníu.
Bitter telur að fjarlægja ætti hátt í 11.300 hektara af vínviðum við Santa Barbara, Mendocino og Monterey. Hann sagði að hátt í 2.800 hektarar af Cabernet Sauvignon-þrúgum ættu að hverfa við strendur Kaliforníu.
Stuart Spencer, framkvæmdastjóri hjá Lodi Winegrape Commission og vínframleiðandi í St. Amant-víngerðinni í Lodi, tekur í sama streng en segir enn óljóst hvenær framleiðslan muni ná jafnvægi á ný.