Vínneysla á heimsvísu dróst saman um 3,3% á síðasta ári samkvæmt Alþjóðlegu vínstofnuninni OIV. Þetta er þriðja árið í röð sem vínneysla dregst saman en neyslan hefur ekki verið minni síðan 1961.
Á vef Decanter segir að verðbólga hafi haft mikið að segja um neysluhegðun vínunnenda og drekka þá neytendur í stórum vínlöndum eins og Frakklandi minna vín en áður.
Vínneysla í Bandaríkjunum, stærsta vínmarkaði heims, dróst einnig saman um 5,8% og var samdrátturinn í Frakklandi 3,6%. Ítalir, Spánverjar og Portúgalar sáu hins vegar ekki mikinn samdrátt og jafnvel örlitla aukningu árið 2024.
Kínverjar héldu einnig áfram að drekka minna vín og er þjóðin nú komin niður í tíunda sæti yfir stærstu víndrykkjuþjóðir heims. Árið 2019 var Kína í fimmta sæti á þeim lista.
„Langvarandi verðbólga og markaðsóvissa hafa haft mikil áhrif á verð og viðhorf neytenda. Við höldum einnig áfram að fylgjast með áhrifum langtímasamdráttar í neyslu á mörkuðum þar sem breytt lífskjör, breyttar félagslegar venjur og kynslóðaskipti breyta neysluhegðun,“ segir John Barker, forstjóri OIV.