Tilnefningarnefnd upplýsingatæknifyrirtækisins Origo hefur lagt til tvær breytingar á stjórn félagsins frá fyrra ári, fyrir komandi aðalfund þann 3. mars næstkomandi.
Þrír tilnefndir stjórnarmenn voru áður sitjandi stjórnarmenn, þau Auður Björk Guðmundsdóttir, Hildur Dungal og Hjalti Þórarinsson. Tveir nýir einstaklingar voru tilnefndir inn í stjórnina, þeir Ari Daníelsson og Ari Kristinn Jónsson. Leggur nefndin til að þeir komi í stað tveggja stjórnarmanna, þeirra Guðmundar Jóhanns Jónssonar og Ívars Kristjánssonar, sem ekki gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Ari Daníelsson er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hjá Reviva Capital S.A. í Lúxemborg, sem er sérhæft eignastýringarfyrirtæki með starfsemi í 6 löndum. Hann hefur gegnt fjölmörgum stjórnarstörfum í fyrirtækjum á fjármálamarkaði, í greiðslumiðlun og í upplýsingatækni á Íslandi og erlendis á undanförnum 20 árum.
Ari Kristinn Jónsson starfaði í 10 ár hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, sem sérfræðingur og stjórnandi. Meðal verkefna sem hann kom að voru Mars könnuðurnir Spirit og Opportunity og stýring sólarorkusafnara alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Hann gekk til liðs við Háskólann í Reykjavík árið 2007 og var skipaður rektor háskólans í byrjun árs 2010. Á síðasta ári tók hann við stöðu forstjóra AwareGO.
Sjá einnig: Origo upp um 12% á tveimur dögum
Megináherslur í vali nefndarinnar á nýjum stjórnarmönnum voru þekking á upplýsingatækni, reynsla af fjárfestingum, stjórnarháttum og nýsköpun. Einnig taldi nefndin mikilvægt að fá aðila sem hefðu alþjóðlega reynslu í viðskiptum og upplýsingatækni, en nefndina skipa Eyþór Ívar Jónsson, Hanna María Jónsdóttir og Ívar Kristjánsson.