Elvar Páll Sigurðsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri Men&Mice og mun leiða markaðssetningu fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum. Hann hefur hefur stýrt stafrænni markaðssetningu fyrirtækisins undanfarin þrjú ár og tekur nú við starfi markaðsstjóra.

Elvar Páll starfaði áður sem markaðsráðgjafi hjá Pipar/TBWA auk þess sem hann hefur komið að fjölda verkefna bæði hérlendis og erlendis.

Hann lærði líffræði í Bandaríkjunum og er með meistaragráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

„Ég er gríðarlega þakklátur fyrir það traust sem fyrirtækið sýnir mér og hlakka mikið til framtíðarinnar með Men&Mice. Fyrirtækið stendur á tímamótum þar sem hugbúnaðarlausnin er í algjörum sérflokki og á heimsmælikvarða, enda nokkur af stærstu fyrirtækjum heims á viðskiptavinalista okkar, ” segir Elvar Páll.

Men&Mice er íslenskt nýsköpunar- og hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir stórfyrirtæki og stofnanir sem reka flókna netinnviði. Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru 12 af 100 stærstu fyrirtækjunum í Bandaríkjunum eins og Microsoft, FedEx, AT&T og Intel.

Magnús E. Björnsson, framkvæmdastjóri Men&Mice:

„Elvar hefur sýnt það og sannað að hann er hæfileikaríkur stjórnandi, lausnamiðaður og á auðvelt með að virkja teymi til árangurs. Elvar tekur við öflugri markaðsdeild Men&Mice og ég hlakka til að sjá hann takast á við nýjar og spennandi áskoranir.”