Heilsutæknisprotinn Kara Connect hefur ráðið fimm nýja starfsmenn, þau Ídu Logadóttur, Aliesya Bozhytska, Andrew Osborne, John McElligott og Barry Collins.

Kara Connect er hugbúnaðarfyrirtæki sem framleiðir og þróar hugbúnað til að tengja saman sérfræðiaðstoð og skjólstæðinga. Kara Connect lauk nýlega 6 milljóna evra fjármögnun, eða sem nemur 840 milljónum króna á gengi dagsins. Iðunn framtakssjóður, sem er í rekstri Kviku eignastýringar, leiddi fjármögnunina og er nú stærsti hluthafi Köru.

John McElligott tekur við starfi rekstrarstjóra (COO) en hann hefur setið í stjórn Köru síðustu tvö ár. Hann er lærður verkfræðingur ásamt því að hafa lokið MBA-námi, og hefur reynslu í uppbyggingu netfyrirtækja, m.a. hjá eBay, Smartbox og Interflora. John situr einnig í stjórn góðgerðarsamtakanna Clear Global sem sjá um túlkaþjónustu um allan heim.

Barry Collins er nýr sölustjóri hjá Köru. Barry, sem er með Bsc-gráðu í tölvunarfræði og MSc-gráðu í Organisation Behaviour, hefur komið víða að sem sölu- og viðskiptastjóri síðustu þrjátíu árin. Hann hefur reynslu í viðskiptaþróun, markaðssókn, nýsköpun á sviði sölu og markaðssetningar og hefur verið árangursríkur í fjölgun viðskiptavina og aukningu tekna, m.a. hjá Twitter, Skype og Dell.

Ída Logadóttir hefur verið ráðinn efnisstjóri og textasmiður. Ída er með MA-gráðu í heimssögu og alþjóðasamskiptum frá Erasmus University í Rotterdam og BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði síðast sem aðstoðarvörustjóri hjá netversluninni Heimkaup, hefur reynslu af textasmíði og efnisstjórnun fyrir netverslanir og starfar einnig sem sjálfstætt starfandi þýðandi.

Andrew Osborne hefur verið ráðinn vörustjóri hjá Köru. Andrew er með BA-gráðu í Visual Arts frá University of South Australia og MA-gráðu í Design and Digital Media frá University of Adelaide. Hann starfaði síðast sem yfirhönnuður hjá Sidekick Health og hefur yfir 15 ára reynslu í teymisstjórnun í vöruþróun sem stofnandi, viðskiptastjóri, vörustjóri og yfirhönnuður.

Aliesya Bozhytska er nýr UI/UX hönnuður hjá Köru. Aliesya er með MA-gráðu í Language, Interpretation and Translation frá Kyiv National Linguistics University og lærði vefsíðuhönnun hjá Projector Institute. Hún starfaði síðast sem viðskiptastjóri hjá Lucid Reality Labs og hefur reynslu í viðskiptaþróun, ráðgjöf og stafrænni vöruþróun, m.a. á sviði heilbrigðis- og menntatækni.

Barry Collins, sölustjóri hjá Köru.