Godo, hugbúnaðarfyrirtæki á sviði ferðaþjónustulausna, hefur ráðið Finnboga Hauk Birgisson sem framkvæmdastjóra félagsins en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri dótturfélagsins Travia undanfarin ár. Finnbogi Haukur tekur við starfinu af Katrínu Magnúsdóttur, sem hefur tekið sæti í stjórn félagsins ásamt því að sinna áfram sérverkefnum fyrir félagið.

Finnbogi Haukur er með MBA gráðu frá Háskóla Reykjavíkur og þar að auki mikla reynslu úr rekstri ferðaskrifstofa og hugbúnaðarþróunar.

„Finnbogi Haukur tekur við góðu búi frá Katrínu Magnúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra og fögnum við því um leið að fá jafn sterkan einstakling í stjórn félagsins,“ segir Sverrir Steinn, stjórnarformaður og meðstofnandi Godo, í tilkynningu.

„Það hefur verið gaman að fylgjast með vexti Travia undanfarin ár en bókanir í gegnum markaðstorgið Travia eru að nálgast 250.000 á árinu og eru einungis bókanir í gegnum Booking.com fleiri á íslenskum hótelmarkaði. Framtíðin er björt og eru erlendir markaðir í sí auknum mæli farnir að sýna hugbúnaðarlausnum félagsins áhug,“ segir Sverrir.

Fleiri breytingar hjá Godo

Þá hefur Stefnir Agnarsson tekið við framkvæmdastjórn rekstrarþjónustusviðs Godo. Stefnir starfaði áður sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Avis Bílaleigu, en hann hefur starfað hjá Avis frá árinu 2015. Þá hefur hann m.a starfað fyrir Wow air og Mercer Investment Consulting í London ásamt því að vera fyrirlesari hjá Akademias. Stefnir er með M.S.c gráðu í fjárfestingastjórnun frá Bayes Business School í London og B.A. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Fyrr á árinu tók Kristján F.Kristjánsson, framkvæmdastjóri 50skills á Íslandi, sæti í stjórn Flekaskila ehf sem er móðurfélag Godo og situr þar ásamt Katrínu Magnúsdóttur og stofnendum félagsins, Sveini Jakobi Pálssyni og Sverri Steini Sverrissyni.

Tekjur Flekaskila ehf., móðurfélags Godo og Travia, námu tæpum hálfum milljarði á síðasta rekstrarári og skilaði félagið rúmlega 60 milljóna króna hagnaði fyrir árið 2021. Hjá félaginu starfa tæplega 30 manns á Íslandi og um 50 manns erlendis.