Jóhann Örn B. Benediktsson hefur verið ráðinn til starfa hjá pítsakeðjunni Pizzan ehf. sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Jóhann hefur starfað síðustu fjögur ár sem ráðgjafi í fjármálagreiningum og stjórnendaupplýsingum hjá hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtækinu Cubus. Þar áður starfaði hann sem skrifstofu- og fjármálastjóri hjá Lögmönnum Laugardal og Fasteignasölunni Miðborg. Samhliða því var hann meðeigandi að nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfði sig í sýndarveruleika.

Jóhann hefur einnig starfað sjálfstætt sem ráðgjafi í fyrirtækjarekstri og fjárfestingum og sem kennari í fjármálum fyrirtækja og fjárhags- og rekstrarbókhaldi.

Hann útskrifaðist með MBA gráðu frá Háskóla Íslands árið 2018 og er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla. Hann lagði stund á M.Sc. nám í stjórnun alþjóðafyrirtækja (e. International Management) í Toulouse School of Management í Frakklandi.

„Ég er mjög spenntur að taka við þessu krefjandi verkefni fyrir Pizzuna. Þörf er á töluverðum breytingum á tækni, rekstri og verkferlum sem ég mun taka föstum tökum,“ segir Jóhann Örn.

„Pizzan hefur mikil sóknartækifæri, að auki við mikla möguleika á innviðabreytingum. Við erum einnig að ráða inn nýjan markaðsstjóra sem mun leiða vöruþróun, markaðssetningu og framþróun á vörumerkinu. Saman, með Ólafi eiganda, ætlum við að taka Pizzuna á hærra plan.“

Gengið í gegnum mikla endurskipulagningu

Pizzan rekur átta veitingastaði, sjö á höfuðborgarsvæðinu og einn á Akureyri. Viðskiptablaðið sagði frá því í sumar að hlutafé Pizzunnar var aukið um 360 milljónir króna í fyrra eftir taprekstur síðustu ára.

„Síðasta ár hefur reynst okkur mjög erfitt,“ segir Ólafur Friðrik Ólafsson, eigandi Pizzunnar, í tilkynningunni.

„Við höfum gengið í gegnum mikla endurskipulagningu á síðustu misserum og er nýtt stjórnendateymi stór partur af þeim breytingum. Ég er mjög spenntur að vinna með Jóhanni í að leiða félagið áfram í þeim verkefnum sem framundan eru. Það sem við munum hafa að leiðarljósi er að breyta verkferlum, bæta þjónustu og tækni og að sjálfsögðu bjóða upp á bestu pizzurnar.“