Kristín Vala Matthíasdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Coca-Cola á Íslandi.
Kristín Vala hefur tekið þátt í uppbyggingu og rekstri félaga bæði í orku- og flugiðnaði. Hún starfaði síðast sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Bluebird Nordic en þar á undan starfaði hún í um 15 ár í orkugeiranum, lengst af sem framkvæmdastjóri hjá HS Orku þar sem hún stýrði rekstri og viðhaldi virkjana og auðlindum félagsins.
Hún er með meistaragráðu í efnaverkfræði frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð.
„Það er mjög spennandi að hefja störf á nýjum vettvangi og að ganga til liðs við Coca-Cola á Íslandi sem er ekki bara eitt stærsta matvælafyrirtæki landsins heldur er það einnig hluti af einum stærsta drykkjavöruframleiðanda heims,“ segir Kristín Vala.
Kristín Vala er gift Sindra Sveinssyni viðskiptafræðingi og eiga þau saman þrjá drengi á aldrinum 11-17 ára.
Coca-Cola á Íslandi er einn stærsti drykkjavöruframleiðandi landsins og þar starfa um 170 starfsmenn við brugghús fyrirtækisins á Akureyri og við gosframleiðslu í Reykjavík. Fyrirtækið er hluti af Coca-Cola Europacific Partners sem er stærsta sjálfstæða átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum.