„Ég mun stýra starfsemi allra hótela félagsins og halda utan um reksturinn. Það felst meðal annars í stuðningi við hótelstjórana okkar, að halda þjónustustiginu háu og hagræða þegar færi gefst. Það er mikilvægt að hafa augun opin fyrir mögulegum bætingum í rekstrinum og kryfja alla tölfræði sem því tengist,“ segir Daníel Friðriksson, nýr framkvæmdastjóri rekstrar hjá Keahótelum.

Daníel segir mikilvægast í hótelrekstri að verkferlar séu í lagi og allir sem við koma rekstrinum séu á sömu blaðsíðunni. „Í þessum geira er mikið unnið með erlendum starfsmönnum og fólki sem er að flytja til Íslands í fyrsta skipti. Því er mikilvægt að geta unnið með fjölbreyttum starfshóp af ýmsum þjóðernum.“

Daníel er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og BI gráðu í hótelrekstri frá César Ritz Colleges í Sviss. Í Bachelor-náminu fór Daníel í starfsnám á fimm stjörnu hóteli Ritz Carlton í Wolfsburg í Þýskalandi. Eftir útskrift fluttist hann síðan til Suður-Karólínu í Bandaríkjunum og vann á öðru fimm stjörnu hóteli.

„Ég er ævintýragjarn og hef gaman af því að flytja á nýjan stað, koma mér fyrir og læra á menninguna og fólkið,“ en Daníel bjó einnig í fimm ár í Danmörku á unga aldri og segist hann hafa kynnst þar sínum bestu vinum.

Nánar er rætt við Daníel í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.