Heilsa segist hafa ráðið Margréti Dagbjörtu Pétursdóttur og Helgu Guðrúnu Daðadóttur í lykilstöður innan fyrirtækisins.
Margrét Dagbjört hefur verið skipuð markaðs- og viðskiptaþróunarstjóri Heilsu, ásamt því að leiða sókn á heilsuvörumerkinu Kulda sem Heilsa keypti fyrr á þessu ári.
Hún hefur starfað hjá Heilsu síðan árið 2020 þar sem hún hefur sinnt stöðum viðskiptastjóra og vörustjóra. Margrét er með M.Sc. í markaðsfræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. í félagsfræði frá sama skóla.
Þá hefur Helga Guðrún tekið formlega við hlutverki vörustjóra vítamína og bætiefna og mun m.a. bera ábyrgð á vörum Gula miðans, vítamínlínu Heilsu.
Hún hefur starfað hjá Heilsu frá árinu 2022, þar sem hún leiddi áður þjónustu- og samfélagsmiðlamál fyrirtækisins og mun áfram stýra samfélagsmiðlum fyrirtækisins með það fyrir augum að samþætta vörustjórnun og stafræna nærveru Heilsu. Helga er með B.Sc. gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands.
„Bæði Margrét Dagbjört og Helga Guðrún hafa sýnt mikinn metnað og driftkraft síðan þær hófu störf hjá Heilsu og meðal annars hjálpað okkur að ýta undir áframhaldandi vöxt fyrirtækisins. Við erum afar spennt að fylgjast með þeim blómstra í nýjum störfum innan fyrirtækisins,“ segir Katrín Ýr Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Heilsu.