Míla hefur ráðið Erik Figueras Torras sem nýjan forstjóra frá og með 1. desember 2022. Erik hefur yfir 30 ára alþjóðlega reynslu í fjarskiptum, þar á meðal hjá alþjóðlegum framleiðendum fjarskiptabúnaðar (OEM) og frumkvöðlafyrirtækjum. Áður gegndi Erik stöðu framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar Símans, sem er fyrrum móðurfélag Mílu. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.
Jón Ríkharð Kristjánsson, núverandi framkvæmdastjóri Mílu, mun setjast í stól stjórnarformanns Mílu og mun því áfram taka þátt í uppbyggingu félagsins. „Með þessari ráðstöfun styrkir Ardian Mílu til að ná markmiðum sínum um að verða að fullu sjálfstætt og leiðandi fjarskiptainnviðafélag á Íslandi. Áherslur félagsins verða áfram á að flýta uppbyggingu á 5G um allt land og á lagningu ljósleiðara til íslenskra heimila, “ segir í fréttatilkynningu.
Ardian Infrastructure Fund V gekk frá kaupum á Mílu af Símanum þann 30. september síðastliðinn, ásamt Summu rekstarfélagi í samstarfi við íslenska lífeyrissjóði sem fara með 10% hlut.
„Míla er nú að hefja nýjan kafla sem óháð innviðafélag í fjarskiptum. Þetta er því góður tími til að gera breytingar. Eftir að hafa stýrt fyrirtækinu undanfarin átta ár er ég ánægður með að halda áfram að styðja við uppbyggingu og rekstur félagsins sem stjórnarformaður. Með Erik höfum við fundið traustan og reyndan stjórnanda til að leiða Mílu,“ segir Jón Ríkharð.
„Á Íslandi, þar sem ég hef átt heima undanfarin tuttugu ár, er einn þróaðasti fjarskiptamarkaður í heimi. Ég er spenntur fyrir því að auka og efla samstarf við viðskiptavini okkar og leiða umbreytingu og vöxt Mílu. Við viljum að Míla sé traustur samstarfsaðili íslenskra fjarskiptafélaga sem gerir þeim kleift að veita viðskiptavinum sínum bestu þjónustuna," segir Erik.
„Við þökkum Jóni innilega fyrir að hafa stýrt Mílu frá árinu 2014. Við erum ánægð með að Míla muni áfram njóta góðs af reynslu hans og mjög mikilli rekstrarþekkingu. Við erum einnig viss um að víðtæk þekking og reynsla Eriks af fjarskiptamarkaði muni styðja við metnaðarfullar uppbyggingaráætlanir Mílu og áform félagsins um að þróa heildstætt þjónustuframboð til allra íslenskra fjarskiptafélaga,“ segir Marion Calcine, fjárfestingarstjóri Ardian Infrastructure.
Jón Ríkharð mun taka við sem stjórnarformaður Mílu. Aðrir í stjórn eru Marion Calcine, fjárfestingastjóri Ardian Infrastructure, Daniel von der Schulenburg, forstöðumaður Ardian Infrastructure Þýskalandi, Benelux og Norður-Evrópu, Oscar Cicchetti, rekstrarfélagi Ardian Infrastructure, Pauline Thomson, forstöðumaður stafrænnar nýsköpunar hjá Ardian Infrastructure, og Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá APM Terminals.