Oddný Assa Jóhannsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður reikningshalds hjá PLAY. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu þar sem segir að hjá PLAY leiði hún deild reikningshalds og sé hluti af stjórnendateymi fjármálasviðs. Þá beri hún ábyrgð á daglegum rekstri reikningshalds og uppgjörum PLAY. Auk þess taki Oddný þátt í mótun stefnu og framtíðarsýnar fjármálasviðs PLAY. Oddný hóf störf hjá PLAY í yfirstandandi mánuði.
Oddný kom til PLAY frá KPMG þar sem hún starfaði frá 2010, fyrst sem sérfræðingur á endurskoðunarsviði og svo sem endurskoðandi og verkefnastjóri.
Oddný er með BSc í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskóla Íslands. Þá er hún löggiltur endurskoðandi.
"Oddný er reyndur endurskoðandi með mjög víðtæka þekkingu á sviði fjármála- og endurskoðunar. Við erum gríðarlega ánægð með að hún sé orðin partur af PLAY liðinu enda mun hún hjálpa okkur við að byggja upp flott félag til framtíðar," er haft eftir Þóru Eggertsdóttur, fjármálastjóra PLAY.