Óskar Hauksson hefur verið ráðinn fjármálastjóri landeldisfyrirtækisins First Water. Óskar kemur frá Símanum þar sem hann hefur gengt stöðu fjármálastjóra frá 2011 en hann hóf störf hjá félaginu árið 2005.
Samhliða ráðningu Óskars tekur Helgi Þór Logason, fráfarandi fjármálastjóri, við stöðu yfirmanns viðskiptaþróunar First Water.
Óskar starfaði áður hjá bandaríska fjárfestingabankanum Bear Stearns, Landsbankanum og Spron. Óskar er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.
„Ég hef fylgst með þróun First Water af áhuga og tel fyrirtækið vera á mjög spennandi stað. Framundan er áframhaldandi uppbygging á háttæknilandeldi í Þorlákshöfn og sókn á erlenda markaði. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í þessu einstaka verkefni sem er stærsta einkaframkvæmd Íslandssögunnar,“ segir Óskar Hauksson, nýr fjármálastjóri First Water.
„Við bjóðum Óskar velkominn til starfa. Það er mikill fengur af því að fá jafn öflugan og reynslumikinn mann til liðs við First Water. Reynsla hans og þekking mun styrkja félagið í áframhaldandi vexti og auka slagkraft þess enn frekar,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water.