Stjórn HS Veitna hefur ráðið Pál Erlend sem nýjan forstjóra fyrirtækisins og mun hann hefja störf í byrjun næsta árs. Páll mun taka við stöðunni af Júlíusi Jóni Jónssyni sem lætur af störfum eftir 40 ára starf í lok þessa árs.
Í tilkynningu félagsins kemur fram að Páll hafi verið valinn af tæplega 40 umsækjendum. Stjórn HS Veitna fór í ráðningarferli með Vinnvinn ráðningastofu í ágúst síðastliðnum.
Páll hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja á Íslandi frá árinu 2017. Þar áður hafði Páll m.a. starfað sem framkvæmdastjóri veitureksturs Orkuveitu Reykjavíkur í sjö ár og framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.
Páll er með MBA frá Rockford University í Bandaríkjunum og BS í viðskiptafræði frá sama skóla.
„Ég vil þakka stjórn HS Veitna, Vinnvinn ráðningarstofu, umsækjendum og starfsmönnum fyrir gott samstarf og umburðarlyndi meðan á ferlinu stóð. Síðast en ekki síst þakkir til Júlíusar og störf hans sem hafa verið ómetanleg fyrir HS Veitur,“ segir Guðný Birna Guðmundsdóttir stjórnarformaður HS Veitna.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/53238.width-1160.jpg)