Stjórn HS Veitna hefur ráðið Pál Erlend sem nýjan forstjóra fyrirtækisins og mun hann hefja störf í byrjun næsta árs. Páll mun taka við stöðunni af Júlíusi Jóni Jónssyni sem lætur af störfum eftir 40 ára starf í lok þessa árs.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að Páll hafi verið valinn af tæplega 40 umsækjendum. Stjórn HS Veitna fór í ráðningarferli með Vinnvinn ráðningastofu í ágúst síðastliðnum.

Páll hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja á Íslandi frá árinu 2017. Þar áður hafði Páll m.a. starfað sem framkvæmdastjóri veitureksturs Orkuveitu Reykjavíkur í sjö ár og framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.

Páll er með MBA frá Rockford University í Bandaríkjunum og BS í viðskiptafræði frá sama skóla.

„Ég vil þakka stjórn HS Veitna, Vinnvinn ráðningarstofu, umsækjendum og starfsmönnum fyrir gott samstarf og umburðarlyndi meðan á ferlinu stóð. Síðast en ekki síst þakkir til Júlíusar og störf hans sem hafa verið ómetanleg fyrir HS Veitur,“ segir Guðný Birna Guðmundsdóttir stjórnarformaður HS Veitna.

Júlíus Jón Jónsson, fráfarandi forstjór HS Veitna.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)