Sara Pálsdóttir tók nýlega við starfi framkvæmdastjóra Samfélags sem er nýtt svið hjá Landsbankanum. Undir það heyra mannauðsmál, markaðsmál, samskipti, sjálfbærni, og hagfræðideild bankans.
„Verkefnin hjá okkur í Samfélagi eru fjölbreytt að efni og umfangi. Megináherslan hjá mér þessa dagana er á sjálfbærnina og mannauðsmál. Við skipuleggjum markaðsherferðir, erum ábyrg fyrir innri og ytri samskiptum, komum að gerð fræðsluefnis og stuðlum að símenntun og starfsþróun, svo nokkuð sé nefnt.“
Sara segir að Covid-19-faraldurinn hafi staðfest kosti sveigjanlegs vinnurýmis. „Í nýju höfuðstöðvunum við Austurbakka verða fjölbreytt rými sem starfsfólk getur notað eftir því sem verkefnin krefjast. Fólk getur unnið við skrifborðið, í næðisrými, í fundarherbergjum eða jafnvel heima, allt eftir verkefnum og aðstöðu hverju sinni. Þetta kallast verkefnamiðuð vinnuaðstaða en það má allt eins nefna þetta sveigjanlega vinnuaðstöðu."
Hún segist hafa áhuga á mörgu. „Ég veiði rjúpur, fer í fjallgöngur og skíða. Ég geri það sem árstíðin býður upp á." Sambýlismaður hennar er Kjartan Guðbergsson, Daddi Disco, markaðsráðgjafi og plötusnúður. Daddi er með skíðaferðir til Andorra sem Sara var einmitt í þegar þetta viðtal var tekið.
Sara hefur búið á mismunandi stöðum í gegnum ævina. „Ég fæddist í Vestmannaeyjum en flutti til Bretlands þegar ég var 6 ára. Ég flutti heim 16 ára þegar ég hóf nám í Versló og flutti síðan til Akureyrar og stundaði nám í Háskólanum á Akureyri. Þaðan flutti ég svo aftur til Bretlands þar sem eldra barnið mitt fæddist og fór svo heim til Eyja þar sem við bjuggum í tvö ár og þar kom seinna barnið í heiminn. Í kjölfarið bjuggum við í Hafnarfirði í 10 ár áður en við Daddi og börn færðum okkur í Kópavog nú fyrir skemmstu."
Nánar er rætt við Söru í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .