Sigríður Theódóra Pétursdóttir og Arnar Halldórsson hafa bæst í eigendahóp auglýsingastofunnar Brandenburg en þau hafa bæði starfað sem stjórnendur á stofunni undanfarin ár.

Alls eru eigendur Brandenburgar nú sex, en fyrir í eigendahópnum eru stofnendur stofunnar þeir Bragi Valdimar Skúlason, Hrafn Gunnarsson, Jón Ari Helgason og Ragnar Gunnarsson.

Sigríður Theódóra tók við sem framkvæmdastjóri Brandenburgar snemma á þessu ári. Áður vann hún sem viðskiptastjóri og síðar aðstoðarframkvæmdastjóri stofunnar ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn. Sigríður Theódóra út­skrifaðist með B.A. gráðu í ís­lensku og M.A. gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskipt­um frá Há­skóla Íslands. Auk þess lauk hún sér­hæfðu meist­ara­prófi í markaðslegri stjórn­un og sam­skipt­um frá Tou­lou­se Bus­iness School. Þá situr Sigríður Theódóra í stjórn SÍA og Ímark.

Arnar hóf störf á Brandenburg sem aðstoðarhönnunarstjóri árið 2020 og er nú sköpunarstjóri, ásamt því að leiða stefnumótun í verkefnum stofunnar. Hann var áður yfirhönnar- og teymisstjóri á nokkrum af virtustu auglýsingastofum Skandinavíu á borð við SMFB, The Oslo Company og NORD DDB. Þá hafa ýmis verkefni sem Arnar hefur leitt unnið til alþjóðlegra verðlauna og má þar nefna Cannes Lions, The One Show, Eurobest og New York Festivals. Arnar lauk námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands og útskrifaðist með M.Sc. gráðu í sjónlist frá Duncan of Jordanstone College of Art and Design í Skotlandi.

Bragi Valdimar Skúlason, stjórnarformaður og einn eigenda Brandenburgar:

„Það er frábært að fá þau Sigríði Theódóru og Arnar í eigendahóp stofunnar en þau hafa verið í lykilhlutverkum hjá okkur lengi. Þau eru bæði með fjölbreytta reynslu sem nýtist vel við áframhaldandi uppbyggingu stofunnar sem og í skemmtilegum og krefjandi verkefnum fyrir viðskiptavini okkar.“