Sólveig Stefánsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri líftæknifyrirtækisins Saga Natura og tekur hún við starfinu af Lilju Kjalarsdóttur sem flytur sig yfir til Alvotech. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu

Sólveig tók við stöðu fjármálastjóra Saga Natura í ágúst 2021, en starfaði um árabil sem fjármálastjóri Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Einnig starfaði hún í eignastýringu fagfjárfesta og við verðbréfamiðlun hjá Virðingu.

Sólveig lauk MBA prófi við Háskólann í Reykjavík árið 2020 og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla árið 2003. Auk þess hefur Sólveig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

„Við sjáum fram á mikil tækifæri, þar sem áhuginn á okkar einstöku vörum eykst mikið samhliða aukinni vitund almennings um mikilvægi þess að stuðla að góðri heilsu, á sem náttúrulegastan hátt,” er haft eftir Sólveigu.

Saga Natura er markaðsdrifið rannsóknar- og þróunarfyrirtæki sem hefur undanfarin ár þróað og markaðssett fjölmörg bætiefni úr náttúrulegum hráefnum, svo sem úr íslenskri ætihvönn og astaxanthin, sem unnið er úr þörungum sem ræktaðir hafa verið af fyrirtækinu.

Lilja Kjalarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Saga Natura:

„Saga Natura er á spennandi tímamótum og mörg krefjandi og áhugaverð verkefni framundan. Ég hlakka til að fylgjast áfram með árangri fyrirtækisins og tel að Sólveig sé mikill fengur fyrir félagið.“