Halldór Snorrason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Flügger ehf. á Íslandi. Hann tekur við starfinu af Rolf Gjølberg, sem sinnti áður framkvæmdastjórn bæði á Íslandi og í Noregi.

Rolf heldur áfram sem framkvæmdastjóri Flügger í Noregi og ber áfram yfirábyrgð á starfsemi fyrirtækisins á Íslandi, en með þessum breytingum færist dagleg framkvæmdastjórn Flügger á Íslandi alfarið í hendur Halldórs, að því er segir í fréttatilkynningu.

Halldór hefur starfað hjá Flügger Íslands frá árinu 2008 og hefur undanfarin ár gegnt starfi aðstoðarframkvæmdastjóra. Á þeim tíma hefur hann haft yfirumsjón með rekstri, vörustjórn, og sinnt skipulagningu á bakvinnslu og stjórnsýslu.

Í nýrri stöðu sem framkvæmdastjóri mun hann taka við ábyrgð á sölu fyrirtækisins á Íslandi, verkefni sem hann hefur ekki áður sinnt beint.

„Ég hlakka til að halda áfram að styrkja sölu og stöðu Flügger á Íslandi í heild sinni. Markmiðið mitt er að byggja upp öflugt teymi og efla tengslin við viðskiptavini enn frekar, með áherslu á þjónustu, gæði og traust. Ég sé tækifæri til vaxtar á mörgum sviðum og hlakka til að vinna með starfsfólki okkar að því að nýta þau til fulls,“ segir Halldór.

„Halldór hefur verið ómetanlegur í gegnum árin og gegnt lykilhlutverki í að byggja upp sterka stöðu Flügger á Íslandi. Hann hefur veitt teyminu festu og öryggi með sinni skipulögðu og lausnamiðuðu vinnu. Ég er fullviss um að hann muni leiða fyrirtækið áfram með árangri í þessu nýja hlutverki,“ segir Rolf Gjølberg.