Þóra Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálsviðs Play, hefur sagt starfi sínu lausu. Hún hefur starfað hjá flugfélaginu síðan í maí 2021 og leiddi skráningu félagsins á First North-markaðinn.
„Þóra mun sinna stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs þar til eftirmaður hennar tekur við en tilkynningar þess efnis er að vænta bráðlega,“ segir í tilkynningu Play til Kauphallarinnar.
Þóra hefur starfað í fluggeiranum frá árinu 2017. Áður en hún hóf störf hjá Play gegndi hún stöðu forstöðumanns innanlandsflugs hjá Icelandair og var þar áður fjármálastjóri Air Iceland Connect. Þá var Þóra forstöðumaður áhættu- og fjárstýringar hjá Landsneti á árunum 2012-2017.
Þóra Eggertsdóttir:
„Ég er stolt af því að hafa fengið tækifæri til að vinna fyrir Play sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs á þeim tíma er félagið var í uppbyggingarfasa. Stoltust er ég af fjármálateyminu sem við höfum byggt upp síðustu misseri og mun sannarlega sakna samstarfsfólksins. Ég hef ákveðið að breyta til og skipta um takt og ákvað að segja skilið við félagið. Ég óska Play alls hins besta og hlakka til að fylgjast með úr örlítið meiri fjarlægð.“
Birgir Jónsson, forstjóri Play:
„Þóra hefur verið öflug og góð samstarfskona á því mikla uppbyggingartímabili sem Play hefur verið í síðasta eina og hálfa árið. Hún hefur byggt upp gríðarlega öflugt og flott teymi með sér og lagt grunn sem við munum byggja á í framtíðinni. Ég þakka Þóru innilega fyrir gott og faglegt samstarf og hennar mikilvæga framlag um leið og ég óska henni velfarnaðar í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur í næsta kafla.”