Tveir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til Fossa fjárfestingarbanka. Þórður Ágúst Hlynsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Fossa og Þorbjörg M. Einarsdóttir tekur til starfa sem sérfræðingur á nýju fjármálasviði bankans. Bæði búa yfir yfirgripsmikilli reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þórður Ágúst býr að yfir 20 ára starfsreynslu sem fjármálastjóri, framkvæmdastjóri og ráðgjafi í fyrirtækjaráðgjöf. Hann kemur til Fossa frá Festi fasteignaþróunarfélagi þar sem hann var fjármálastjóri. Árin 2017 til 2018 var hann framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar GAMMA en þar á undan, 2012 til 2016, var hann framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandic Group. Árin 2006 til 2012 vann Þórður í London, meðal annars hjá Landsbanka Securities Limited, Pensum Partners Limited sem ráðgjafi og eigandi og að lokum hjá G.A. Wedderburn & Co Limited sem framkvæmdastjóri.
Þórður er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið M.Sc. gráðu í fjármálum frá Cass Business School í London. Auk þess hefur Þórður lokið námi í verðbréfaviðskiptum og FCA prófi í fyrirtækjaráðgjöf í Bretlandi.
Þorbjörg Matthildur kemur til Fossa frá Icelandair. Hún hefur mikla reynslu af störfum við fjárhagsbókhald- og eftirlit.
Þorbjörg starfaði sem Financial Control Manager hjá Icelandair frá 2020 og þar áður sem þjónustustjóri hjá Fjárvakri, dótturfyrirtæki Icelandair Group. Áður starfaði Þorbjörg hjá N1 2008 til 2016, lengst af sem deildarstjóri reikningshalds á fjármálasviði. 1999 til 2008 vann Þorbjörg á fjármálasviði Skýrr og tók þar við sem hópstjóri bókhalds 2005.
Þorbjörg er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.