Um er að ræða nýja sex þátta þáttaröð sem Act4 framleiðir fyrir Ríkisútvarpið og þýska ríkissjónvarpið ZDF en um er að ræða annað verkefni framleiðslufyrirtækisins. Þættirnir bera heitið Bless Bless Blesi á íslensku og Death of a Horse á ensku.
Framleiðslufyrirtækið Act4 var stofnað í byrjun árs 2023 af þeim Jónasi Margeiri Ingólfssyni, Birki Blæ Ingólfssyni, Ólafi Darra Ólafssyni og Herði Rúnarssyni. Fyrsta verkefni fyrirtækisins voru þættir sem heita Reykjavík Fusion í samstarfi við Skot Productions en þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans í september.
Að sögn Jónasar eru fleiri verkefni í vinnslu en áhersla er lögð á færri en stærri og vel unnin verkefni.
„Við erum með verkefni í pípunum sem við ætlum að reyna að ráðast í á næstunni sem heitir Stóri bróðir og er byggt á samnefndri skáldsögu Skúla Sigurðssonar, sem fékk Blóðdropann. Ólafur Darri er að leiða þróunina á því og við erum að gera það í samstarfi við einn stærsta dreifingaraðila Evrópu sem heitir ZDF Studios. Það er mjög þéttur gangur í því verkefni og ætli það verði ekki næst.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.