Til stendur að innleiða tilskipun frá Evrópusambandinu sem snýr að upplýsingagjöf um sjálfbærni eða CSRD-tilskipunina (e. Corporate Sustainable Reporting Directive) í byrjun næsta árs. Áform um lagasetningu birtust í samráðsgátt í síðasta mánuði og lauk umsagnafresti í síðustu viku.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er bent á að í áformaskjalinu um lagasetningu sé vísað til þess að kostnaðurinn við að afla sjálfbærniupplýsinga ætti að vera hóflegri þar sem markaðurinn fyrir slíkar upplýsingar fari stöðugt vaxandi.

„Þetta er ekki rökstutt frekar og draga SA fullyrðinguna í efa. Það er ljóst að fyrirhugaðar breytingar munu auka eftirspurn eftir gögnum og hafa verulegan kostnað í för með sér. Það er því brýnt að vandað verði til verka þannig að innleiðingin verði skynsamleg og að gætt verði að hagsmunum fyrirtækja sem sjái þannig hag sinn í því að ná markmiðum lagasetningarinnar.“

Öll stór fyrirtæki undir

Upprunalega stóð til að ráðherra myndi leggja fram frumvarp um innleiðingu tilskipunarinnar á Alþingi í vor en málið hefur tafist þar sem sameiginlega EES-nefndin hefur ekki afgreitt tilskipunina. Miðað var við að gildistaka CSRD innan Evrópusambandsins yrði í þremur fösum.

Í fasa 1 þyrftu stór fyrirtæki, þ.e. félög með fleiri en 500 ársverk og 3 milljarða króna efnahagsreikning og/eða 6 milljarða króna í hreina veltu, að birta sjálfbærniupplýsingar í ársreikningi fyrir árið 2024. Í fasa tvö kæmu síðan fyrirtæki með fleiri en 250 ársverk og í þriðja fasa lítil og meðalstór fyrirtæki.

Í umsögn SA segir að samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verði fasar eitt og tvö sameinaðir vegna tafa á innleiðingu og því þurfa öll fyrirtæki með fleiri en 250 ársverk að skila upplýsingum skv. CSRD fyrir reikningsárið 2025.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.