Heildarhagnaður Eikar fasteignafélags nam 3,5 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi sem er tæp 150% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 1,4 milljarða. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.
Aukinn hagnaður skýrist að mestu leyti af matsbreytingu fjárfestingareigna sem voru jákvæð um 5 milljarða samanborið við 1,7 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2021. „Rekstur félagsins gekk vel og var í takt við áætlanir stjórnenda að teknu tilliti til verðbólgu,“ segir í afkomutilkynningu Eikar.
Virðisútleiguhlutfall félagsins stóð í stað frá áramótum og var 94,5% í lok annars ársfjórðungs. Leigutekjur jukust um 8,5% á milli ára og námu rúmum tveimur milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir jókst um 11% á milli ára og nam 1,6 milljörðum króna.
Heildareignir félagsins námu 123 milljörðum í lok annars ársfjórðungs. Eigið fé var bókfært á 41,5 milljarða í lok júní og eiginfjárhlutfallið nam því 33,8%. Á hluthafafundi félagsins í apríl var samþykkt að greiða 1,74 milljarða króna arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2021.
Virði fasteigna félagsins er um 117,6 milljarðar króna. Fasteignir innan samstæðunnar eru yfir 110 talsins og telja tæplega 314 þúsund útleigufermetra í rúmlega 600 leigueiningum. Heildarfjöldi leigutaka er yfir 400 en þeir stærstu eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Ríkiseignir, Landsbankinn, Sýn, Össur, Míla, Deloitte, Síminn og VÍS.
Sjá einnig: Eik fjárfestir í matvælaframleiðslu
Eik vinnur að gerð kaupsamnings vegna fyrirhugaðra kaupa félagsins á fasteignafélögunum Lambhagavegur 23 ehf. og Laufskálar fasteignafélag ehf.
Lambhagavegur 23 á 11.944 fermetra gróðurhús í Úlfarsárdal í Reykjavík auk íbúðarhúsnæðis. Laufskálar eiga lóð og fasteign í Lundi í Mosfellsdal, sem er 6.821 fermetrar auk 14.300 fermetra byggingarheimildar.
Í atvinnuhúsnæði félaganna fer fram grænmetisrækt Lambhaga ehf., en nýlega hefur komið fram að Eik ætli að kaupa félagið á 4,2 milljarða króna.