Paramount, móðurfyrirtæki sjónvarpsstöðvarinnar CBS, hefur tryggt sér sýningarrétt á viðburðum bardagasamtakanna UFC í Bandaríkjunum næstu sjö árin en fyrirtækið mun greiða um 1,1 milljarð dala á ári fyrir sýningarréttinn.
Viðburðir UFC verða sýndir á streymisveitunni Paramount+ frá og með næsta ári en markmiðið með kaupunum er að auka vinsældir streymisveitunnar. Áður hafði ESPN, sem er í eigu Walt Disney co., haldið á sýningarréttinum frá árinu 2019 en Paramount greiðir TKO Group, móðurfélagi UFC, nærri tvisvar sinnum meira en ESPN gerði.
Viðskiptavinir Paramount munu ekki þurfa að greiða aukalega fyrir þjónustuna en áður höfðu áhorfendur þurft að greiða sérstaklega til að horfa á stærstu viðburðina.