Velta í olíuverslun frá júlí 2021 til ágúst 2022 nam rúmum 56 milljörðum króna sem er 84% aukning frá sama tímabili ári áður. Samkvæmt virðisaukaskattskýrslum var svipað magn eldsneytis flutt inn en einingarverð hækkaði mikið á milli ára.

Í frétt á vef Hagstofunnar segir að velta hafi aukist í flestum atvinnugreinum undanfarið ár en í sumum þeirra hafi hún þó verið minni en sem nemur 10% hækkun vísitölu neysluverðs á þessu tímabili.

Af helstu atvinnugreinum koma einkennandi greinar ferðaþjónustu á Íslandi næst á eftir í 78% aukningu en veltan í þessum flokki nam 196 milljörðum króna. Velta í undirflokknum farþegaflutningar með flugi nam 65,8 milljörðum, sem er 129% aukning frá fyrra ári.

Velta í flokknum framleiðsla málma jókst um 46% á milli ára og nam 83 milljörðum, sem Hagstofan rekur til verðhækkana en svipað magn var flutt út.

Velta í byggingarstarfsemi jókst um 34% á milli ára og nam ríflega 94 milljörðum. Sem merki um aukin umsvif í byggingariðnaði bendir Hagstofan á að einstaklingum sem fengu laun í þessari atvinnugrein fjölgaði um 10% á milli ára.