PS2 ehf., félag utan um rekstur íslenska lífstílsmerkisins Metta Sport, hagnaðist um 93 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 18 milljóna króna hagnað árið áður.

Um var að ræða annað heila rekstrarár Metta Sport, sem er eitt allra vinsælasta fatamerkið meðal íslenskra ungmenna.

Félagið velti 357 milljónum króna á árinu, og meira en þrefaldaði veltuna á milli ára. Ársverk voru fimm á árinu samanborið við tvö árið áður. Launakostnaður nam tæpum 23 milljónum króna samanborið við tæpar 5 milljónir króna árið áður.

Stjórn félagsins leggur til tíu milljóna króna arðgreiðslu á árinu 2024 vegna ársins 2023. Þeir Pétur Kiernan og Samúel Ásberg hafa rekið Metta Sport frá stofnun, en Pétur á 80% hlut og Samúel 20% hlut.

Vefverslun Metta Sport opnaði sumarið 2021 og hóf félagið rekstur í Síðumúla, en er í dag til húsa á Barónsstíg 11a.