Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, varð fyrir vonbrigðum með skort á magnbundinni íhlutun hjá Seðlabanka Íslands í kórónuveirufaraldrinum og hefur áhyggjur af hækkandi vaxtastigi. Jón kemur inn á málefni Seðlabankans, ósjálfbæran hallarekstur ríkissjóðs og erlenda fjárfestingu hér á landi í bréfi sem sent var til hluthafa Stoða í janúar er afkoma félagsins á síðasta ári var kynnt.
Peningastefnunefnd tilkynnti í mars 2020 að til stæði að hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði – aðgerð sem nefnist magnbundin íhlutun – til að stuðla að því að lausara taumhald peningastefnunar miðlist „með eðlilegum hætti“ til heimila og fyrirtækja. Samkvæmt ákvörðun nefndarinnar gat heildarfjárhæð kaupanna numið allt að 150 milljörðum króna. Þegar Seðlabankinn hætti magnbundinni íhlutun í ágúst síðastliðnum hafði hann keypt skuldabréf fyrir samtals 22,6 milljarða króna frá upphafi farsóttarinnar.
Jón segist í bréfinu, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, hafa fagnað vaxtalækkunum Seðlabankans í upphafi faraldurs en orðið fyrir vonbrigðum með skort á magnbundinni íhlutun. Þá vísar hann í orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að árið 2021 yrði ár peningaprentunar. „Skemmst er frá því að segja að árið 2021 kom og fór án þess að nokkur peningaprentun hafi átt sér stað,“ skrifar Jón.
Blind trú á hraustleikamerki hárra vaxta
Í kjölfarið Jón á vaxtahækkanir Seðlabankans undanfarna mánuði samhliða vaxandi verðbólgu sem hefur meðal annars verið drifin áfram af hækkandi fasteignaverði. Jón rekur verðhækkanir á fasteignamarkaði til vaxtalækkana og aukins kaupmáttar vegna mikilla launahækkana.
„Áfram er gert ráð fyrir frekari vaxtahækkunum á árinu og hafa þær væntingar haft neikvæð áhrif á þróun vaxta til skemmri og lengri tíma. Það hefði verið æskilegt að ríkið og fyrirtæki hefðu haft betra – og lengra – tækifæri til að nýta sér lágt vaxtastig til að fjármagna framkvæmdir. En sumir virðast lifa í þeirri blindu trú að háir vextir séu hraustleikamerki fyrir hagkerfið.“
Vonar að umræða um erlenda fjárfestingu þroskist
Jón vekur athygli á því að samkvæmt tölum Seðlabankans hafi óskuldsettur gjaldeyrisvaraforði landsins numið 579 milljörðum króna. „Er þetta ánægjulegt enda nauðsynlegt að erlend staða þjóðarbúsins sé sterk.“ Einnig bendir hann á að nettó staða við útlönd hafi aldrei verið betri en Íslendingar eigi nú 1.294 milljörðum meira erlendis en útlendingar hér á landi.
„Það er þó mikilvægt að láta ekki staðar numið en forsenda þess að lífeyrissjóðir og aðrir aðilar geti haldið áfram fjárfestingum erlendis er að gjaldeyrissköpun atvinnuveganna sé sterk. Þá er ekki síður mikilvægt að vekja áhuga erlendra aðila á fjárfestingu í íslensku hagkerfi – eitthvað sem mikið er talað um á hátíðisdögum – en þegar á reynir eru margir oft fljótir að finna því allt til foráttu. Það er von mín að umræðan þroskist enda í meira lagi sérstakt að fagna erlendri fjárfestingu íslenskra lífeyrissjóða en sjá fjárfestingu erlendra aðila sem ógn við íslenskt samfélag.“
Áframhaldandi hallarekstur ríkisins ósjálfbær
Frá því að faraldurinn hófst hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla, m.a. vegna stuðningsaðgerða á borð við hlutabótaleiðina og tekjufallsstyrki. Ríkissjóður var rekinn með 144,5 milljarða halla árið 2020 og 137,5 milljarða halla á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Samkvæmt fjárlögum 2022 er gert ráð fyrir 186 milljarða halla í ár.
„Þó nú sé gert ráð fyrir minni halla af rekstri ríkissjóðs árið 2021 en gert var í upphafi ársins er ljóst að áframhaldandi hallarekstur er ekki sjálfbær. Á sama tíma virðist fjölgun opinberra starfsmanna engin takmörk sett en æskilegt væri að ráðningar beindust að ýmsum sviðum sem veita þjónustu við landsmenn í stað enn meiri yfirbyggingar. Það er von mín að ríkisstjórnin horfist í augu við hið óumflýjanlega viðfangsefni í rekstri hins opinbera á yfirstandandi kjörtímabili,“ skrifar Jón.
Hann bætir þó við að skuldastaða ríkissjóðs sé enn „mjög ásættanleg“.