Fjárfestingafélagið Strengur er orðinn meirihlutaeigandi Skeljungs með 50,06% hlut að teknu tilliti til eigin bréfa Skeljungs samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Íslands í kvöld. Vænta mikilla breytinga á starfsemi Skeljungs næstu misserin.
Félagið tilkynnti í byrjun nóvember að það hygðist gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð eftir að hlutir þriggja aðila, 365, RES II og RPF, voru lagðir inn í félagið Streng sem átti þá 36% í Skeljungi. Yfirtökutilboðið miðaðist við 8,315 krónur á hlut en tilboðinu lauk á mánudaginn og tóku 2,6% hluthafa því og eftir það átti félagið um 42% hlut í Skeljungi.
Síðan þá hefur Strengur haldið áfram að kaupa meira hlutafé í Skeljungi á þónokkuð hærra verði en miðað var við í yfirtökutilboðinu. Í dag keypti félagið bréf á genginu 10,3 til 10,5 krónur á hlut í alls 16 viðskiptum samkvæmt tilkynningum til kauphallarinnar, sem er allt að 26% yfir yfirtökuverðinu. Alls er markaðsvirði eignarhlutar Strengs í Skeljungi um 10 milljarðar króna miðað við nýjustu viðskipti með bréf Skeljungs.
Hluthafar sem tóku upphaflega tilboðinu fá lögum samkvæmt greitt mismuninn þess sem munar á yfirtökutilboðinu og hæsta verði sem Strengur greiðir fyrir hlutina á næstu þremur mánuðum.
Eigendur Strengs eru þegar tveir af stjórnarmönnum Skeljungs, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, sem er stjórnarformaður bæði Strengs og Skeljungs og Þórarinn Arnar Sævarsson. Búast má við að Strengsmenn hyggist ná meirihluta í stjórninni á aðalfundi félagsins þann 4. mars.
Boða miklar breytingar á Skeljungi
Forsvarsmenn Strengs hafa boðað talsverðar breytingar á Skeljungi – selja eignir og greiða hluthöfum út í formi arðs eða kaupa á eigin bréfum auk þess sem þeir vilja afskrá félagið úr Kauphöll Íslands. Þannig muni efnahagsreikningur Skeljungs minnka töluvert á næstu þremur árum nái áform þeirra fram að ganga. Strengshópurinn bendir á að hlutverk Skeljungs muni breytast á næstu árum vegna orkuskipta í samgöngum þar sem bensínbílar séu á útleið.
Í tengslum við tilboðið kom fram að Arion banki og Íslandsbanki hygðust lána fyrir yfirtökutilboðinu og nýta átti arðgreiðslur til að greiða þau lán til baka.
Meirihluti ekki nóg til afskráningar
Þó Strengur hafi eignast meirihluta í Skeljungi er ekki þar með sagt að félagið sé endilega á leið úr Kauphöllinni að svo stöddu. Lífeyrissjóðir í hluthafahópnum, sem eiga samtals um 40% hlut, hafa lagst gegn þeim hugmyndum. Heimavellir er síðasta félagið sam var afskráð úr Kauphöll Íslands. Fyrstu tilraun til að afskrá Heimavelli var hafnað þar sem kauphöllinni þótti stuðningur ekki nægjanlega afgerandi við tillöguna en þá studdu 81% hluthafa Heimavalla afskráningu.
Sýndu Domino's áhuga
Skeljungur keypti í desember rekstur Dælunnar og Löðurs og hlut í Brauð&Co fyrr á árinu. Félagið tók einnig yfir rekstur Basko, árið 2019, sem sá um rekstur verslana við bensínstöðvar Skeljungs, en rekstur Basko stefndi í þrot. Þá greindi Viðskiptablaðið frá því að þeir hefðu sýnt rekstri Domino‘s á Íslandi áhuga.
Að Streng standa félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur sem er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Skeljungs og Strengs, Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar eigenda fasteignasölunnar RE/MAX auk breskra fjárfesta.
Systir Ingibjargar, Lilja Pálmadóttir, átti 0,49% hlut í Skeljungi um áramótin í gegnum félagið Minna hof ehf., samkvæmt nýjasta hluthafalista Skeljungs.
Fréttin var uppfærð eftir að Strengur eignaðist meirihluta í Skeljungi.