Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig og eru stýrivextir því nú 5,75%. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, kynntu yfirlýsingu peningastefnunefndar nú í morgun og hófst fundurinn klukkan 9:30.

Á fundinum spurði Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, Ásgeir út í fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023 og hvort frumvarpið samrýmist því markmiði að ná tökum á verðbólgunni og að ríkisfjármálin og peningamálastjórnun gangi í takt.

„Það liggur fyrir að ríkisstjórnin tók á sig miklar byrðar í faraldrinum og tók á sig áfallið af heimilunum að miklu leyti. Það er erfitt að vinda því til baka. Við hefðum viljað sjá meira aðhald, en fjárlögin eru þó jákvæð að mörgu leyti,“ sagði Ásgeir.

Hann segir að á íslenskum mælikvarða séu ríkisfjármálin að vinna með peningastefnunni gegn verðbólgunni en endurtekur að hann hefði viljað sjá meira aðhald. „Að einhverju leyti er hemill á útgjöld og á sama tíma er tekjubati hjá ríkinu vegna aukinna efnahagsumsvifa. Við hefðum þó viljað sjá þessa Covid innspýtingu ganga hraðar niður, en þetta er í rétta átt.“

Vonandi þurfi ekki að hækka vexti meira

Ásgeir benti á, á fundinum, að baráttan við verðbólguna væri sameiginlegt verkefni, það er ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum. Hann gefur boltann til hinna aðilanna.

„Seðlabankinn er búinn að ná árangri, við höfum hækkað vexti og áhrifin eru komin fram. Ætla aðrir að taka við boltanum? Ætlar vinnumarkaður, ríkisfjármálin og atvinnulífið að taka við boltanum af okkur?“

Ásgeir segist vonast eftir því að það þurfi ekki að koma til frekari vaxtahækkana.

„Við erum að gefa boltann til þessara aðila að þeir leggist á sveif með okkur. Ef það gengur ekki þá þurfum við mögulega að beita vaxtatækinu meira, það er skýrt samkvæmt Seðlabankalögum.“