Heiðrún Jónsdóttir hefur hafið störf sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Hún mun stýra samtökunum í samstarfi við stjórn þeirra.
„SFF eru heildarsamtök íslenskra fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga. Samtökin hafa það að leiðarljósi að stuðla að samkeppnishæfum starfsskilyrðum fyrir fjármálafyrirtæki hér á landi. Dæmi um mál sem eru í gangi hjá SFF eru netöryggismál, innleiðingar Evrópureglna í lög hér á landi til dæmis tengdum sjálfbærni auk ýmissa annarra lagabreytinga.“ Þá nefnir hún einnig að samtökin séu virk í alþjóðasamstarfi, en aðildarfélögin starfi að miklu leyti samkvæmt evrópsku lagaumhverfi.
Heiðrún er flestum hnútum kunnug í viðskiptalífinu en frá árinu 1998 hefur hún setið í stjórnum fjölda fyrirtækja ásamt því að sinna lögmannsstörfum. Hún hefur gaman af stjórnarsetum því verkefnin séu fjölbreytt og breytist í takt við efnahagsumhverfið.
„Eftir hrun þurfti að endurskipuleggja mörg félög í kjölfar þess að rekstrargrundvöllurinn breyttist.“ Nú síðast var Heiðrún varaformaður stjórnar Íslandsbanka og situr í stjórn Regins. Að auki hefur hún setið í stjórn Royal Arctic Line á Grænlandi síðastliðin þrjú ár. Hún rifjar upp þegar stjórn félagsins fundaði í sumar í ákaflega fallegum bæ á Grænlandi sem heiti Sisimiut. „Þar fór ég í göngu með vinkonu minni sem situr með mér í stjórninni. Síðasta deginum eyddi ég í Kangerlussuaq og fór í dagsferð upp á Grænlandsjökul. Fyrst keyrðum við nærri jökulbrúninni, gengum svo upp að jökli og á jökulinn sjálfan. Fegurðin þarna er ólýsanleg og verður þessi ganga seint toppuð.“
Heiðrún er gift Jóhannesi Sigurðssyni, dómara við Landsrétt. Börn hennar eru Jón Hallmar sem stundar laganám við Háskóla Íslands og Heiðveig Björg sem er nemi í Verslunarskólanum. Fyrir átti Jóhannes þrjá syni, Loga, Andrés og Tómas.
„Að öðrum ólöstuðum þá vermir barnabarnið Heimir heiðurssætið.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 13. október.