Flutningafélagið Eimskip segir útlit fyrir að afkoma félagsins verði „umtalsvert betri“ á þriðja ársfjórðungi samanborið viðs sama tíma í fyrra. Eimskip áætlar að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á þriðja fjórðungi verði á bilinu 48,6–50,1 milljón evra, eða um 6,8-7,0 milljarðar króna, samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir júlí, ágúst og september.

Til samanburðar var EBITDA-hagnaður flutningafélagsins á þriðja fjórðungi 2021 um 36,8 milljónir evra, eða um 5,2 milljarðar króna á gengi dagsins (aðlagað fyrir áhrifum af sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið á síðasta ári).

„Helstu ástæður fyrir EBITDA aukningu eru góð afkoma af erlendri starfsemi félagsins og góð nýting í siglingakerfi félagsins sem skýrist af mjög sterkum Trans-Atlantic flutningum, áframhaldandi góðum innflutningi til Íslands, auk þess sem útflutningur frá Íslandi tók við sér á seinni hluta fjórðungsins eins og væntingar stóðu til,“ segir í tilkynningu Eimskips til Kauphallarinnar.

Þá áætlar Eimskip að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á bilinu 32,8-34,3 milljónir evra, eða um 4,6-4,8 milljarðar króna. Til samanburðar var EBIT-hagnaður Eimskips 23,8 milljónir evra á þriðja fjórðungi 2021, eða 3,3 milljarðar króna á gengi dagsins.

Samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir júlí, ágúst og september sem nú liggur fyrir lítur út fyrir að EBITDA á þriðja ársfjórðungi 2022 verði umtalsvert hærri en EBITDA á sama ársfjórðungi í fyrra.

Eimskip tekur fram að uppgjörið fyrir þriðja fjórðung sé enn í vinnslu og því geti niðurstöður tekið breytingum fram að birtingu þann 3. nóvember næstkomandi.