Danska ríkið hefur veitt 634 milljónum danskra króna, um 12,5 milljörðum íslenskra króna, í ríkisaðstoð til fjögurra fyrirtækja sem framleiða vindmyllur eða vinna að Power-to-X tækni, sem felst í umbreytingu grænnar orku í vetni.

Þrátt fyrir að þrjú fyrirtæki hafi verið opinberuð strax, þá var nafn hins fjórða fyrirtækisins, SM Industries, ekki gert opinbert fyrr en núna.

Óvenjuleg leynd yfir styrkveitingunni

Að mati sérfræðinga var leyndin yfir SM Industries óvenjuleg en félagið fékk 45 milljónir danskra króna eða um 900 milljónir íslenskar króna í styrk.

Í september neitaði viðskiptaráðuneytið að veita danska viðskiptamiðlinum Børsen upplýsingar um hvaða fyrirtæki hefði fengið styrkinn, með þeim rökum að opinberun gæti haft „veruleg efnahagsleg áhrif“ á fyrirtækin.

Hins vegar gerðu reglur um styrkveitinguna ráð fyrir að nöfn fyrirtækjanna yrðu gerð opinber sex mánuðum eftir úthlutun, sem nú hefur gerst.

SM Industries er í eigu bræðranna Morten K. Larsen og Michael K. Larsen, sem eru þekktir athafnamenn í Suður-Jótlandi. Fyrirtækið framleiðir stálturna fyrir vindmyllur og íhluti fyrir olíu- og gasiðnaðinn.

Taprekstur hefur verið hjá félaginu síðustu á en frá 2019 hefur félagið tapað samtals 180 milljónum danskra króna, um 3,5 milljörðum íslenskra króna.

Þrátt fyrir að tap ársins 2023 hafi numið 15,5 milljónum danskra króna, um 305 milljónum íslenskra króna, telst það vera framför frá fyrri árum.

Viðbrögð við alþjóðlegri samkeppni

Ríkisaðstoð af þessu tagi hefur talist sjaldgæf í Danmörku, en ríkisstjórnin hefur réttlætt styrkina með vísun í aukna samkeppni frá Bandaríkjunum og Kína, sem styðja grænar tæknigreinar með stórum ríkisstyrkjum.

Í fyrstu umferð styrkja árið 2023 var úthlutað 634 milljónum danskra króna, þó að 200 milljónir danskra króna af ætlaðri lánsfjármögnun hafi verið felldar niður vegna þess að engin fyrirtæki sóttu um lánin. Fyrir 2025 hafa verið boðaðar nýjar 500 milljónir danskra króna eða um 9,85 milljörðum íslenskra króna í styrki, auk 157 milljóna danskra króna sem ekki var úthlutað síðast.

Þessar aðgerðir eru hluti af stefnu Dana um að viðhalda samkeppnisstöðu landsins í framleiðslu á vindmyllum, vindmylluhlutum og Power-to-X tækni, sem felst í umbreytingu grænnar orku í vetni og önnur orkugjafaefni.

Styrkirnir eru sérstaklega ætlaðir verkefnum sem styðja við orkuskipti og umhverfisvæna framleiðslu, til dæmis með því að þróa tæknilausnir sem draga úr kolefnislosun.

Styrkurinn, sem SM Industries hefur fengið, mun renna til Njord Assembly Lines-verkefnisins í Rødekro, sem er ætlað að styðja nýja samninga fyrirtækisins við aðila í vindorkuiðnaðinum.

Þrátt fyrir fjárhagslega erfiðleika hefur fyrirtækið sýnt viðleitni til að snúa rekstrinum við. Frá því að bræðurnir Larsen keyptu SM Industries árið 2022 hafa þeir fjárfest verulega í nútímavæðingu þess.

Samkeppni frá Kína hefur verið mikil áskorun fyrir evrópsk fyrirtæki í vindorkugeiranum, þar sem kínverskir framleiðendur geta boðið vindmylluturna á lægra verði. Þetta hefur leitt til þess að SM Industries hefur í auknum mæli horft til olíu- og gasgeirans.

Bræðurnir hafa þó áður sýnt að þeir geta snúið taprekstri í hagnað, eins og með AH Industries sem þeir keyptu árið 2020 og gerðu aftur arðbært eftir nokkur ár með tapi. Það verður því áhugavert að sjá hvernig ríkisaðstoðin hefur áhrif á framtíð SM Industries.