Félagið Sunnuvellir, sem heldur utan um hlut fjögurra lífeyrissjóða og Íslandsbanka í sólarkísilverksmiðju Silicor Materials sem til stóð að reisa á Grundartanga, hefur afskrifað 32,4% eignarhlut sinn í verkefninu að fullu en til samanburðar var hann færður á hálfan milljarð tveimur árum áður.

Þá var skuldabréfaeign Sunnuvalla á hendur móðurfélagsins Silicor Materials Inc. færð niður um 527 milljónir króna í fyrra, sem svarar til um 95% niðurfærslu, í ljósi óvissu að því er kemur fram ársreikningi félagsins. Lítið hefur heyrst um verkefnið frá sumrinu 2018 þegar enn var sagt stefnt að því að opna sólarkísilverið.

Eignir Sunnuvalla voru bókfærðar á 34 milljónir króna í lok síðasta árs og eigið fé var neikvætt um 866 milljónir. Hluthafar Sunnuvalla gáfu eftir 3 milljarða króna af skuldabréfaláni til félagsins árið 2020. „Verði endurheimtur í samræmi við mat stjórnenda á eignum í árslok 2021 liggur fyrir að semja þarf við eigendur skuldabréfa um frekari eftirgjöf,“ segir í ársreikningi Sunnuvalla.

Sunnuvellir eru í eigu lífeyrissjóðanna Birtu, Festu, LIVE og lífeyrissjóðs Vestmannaeyja, sem fara allir með 20% hlut. Þá fer Summa rekstrarfélag og Íslandsbanki hvort með sinn 10% hlut.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.