Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda eiginfjárauka kerfislega mikilvægra banka, þ.e. Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, óbreyttum í 2% á allar áhættuskuldbindingar. Sömuleiðis heldur nefndin gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttum í 2%.
Í yfirlýsingu sem nefndin birti í morgun segir hún að áhætta tengd fjármálastöðugleika hér á landi hafi vaxið.
„Töluverð óvissa er um alþjóðlegar efnahagshorfur og framvindan ytra kann að hafa neikvæð áhrif á íslenskan þjóðarbúskap næstu misserin. Mikil verðbólga er í helstu viðskiptalöndum okkar og seðlabankar þar hafa enn hert aðhaldsstig peningastefnunnar sem hefur leitt til verri horfa um fjármálastöðugleika. Aðstæður á erlendum fjármagnsmörkuðum hafa versnað fyrir innlend fjármálafyrirtæki. Þá hefur vaxandi innlend eftirspurn leitt til aukins viðskiptahalla.“
Nefndin segir að viðnámsþróttur kerfislega mikilvægu bankanna sé mikill. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er sterk. „Bankarnir hafa getu til að bregðast við ytri áföllum og að styðja við heimili og fyrirtæki.“
Þá segir hún að dregið hafi úr misvægi á íbúðamarkaði á síðustu mánuðum samhliða því sem framboð á eignum til sölu hefur aukist og sölutími fasteigna lengst. „Beiting lánþegaskilyrða hefur dregið úr nýjum áhættusömum lánveitingum og stuðlað að hærra hlutfalli eiginfjár.“
Skref tekin í átt að smágreiðslulausn
Fjármálastöðugleiknefndin hefur í nokkurn tíma fjallað um mikilvægi þess að komið verði á fót óháðri innlendri smágreiðslulausn, m.a. til að auka öryggi í innlendri rafrænni greiðslumiðlun og tryggja rekstrarsamfellu.
„Skref hafa verið tekin í átt að óháðri innlendri smágreiðslulausn sem er mikilvægt með vísan til hagræðis og áhættu, m.a. vegna sífellt vaxandi netógnar.“