Microsoft mun formlega hætta að styðja og gefa út uppfærslur fyrir Windows 10 stýrikerfið þann 14 október nk.
„Í hugbúnaðarheiminum er eðlilegt að upp komi gallar og veikleikar og jafnvel þó Windows 10 sé að verða 10 ára, þá finnast enn öryggisholur og gallar sem þarf að laga. Mikilvægastar eru svokallaðar öryggisuppfærslur sem hjálpa til að koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar komist yfir gögn, lykilorð eða jafnvel stjórn á tölvum,“ segir Arnar S. Gunnarsson, forstöðumaður öryggislausna hjá OK.
Hann segir að tölvurnar sjálfar haldi áfram að virka en frá og með þeim degi munu ekki berast fleiri uppfærslur frá Microsoft.
„Áhættan verður lítil fyrstu dagana en eykst eftir því sem líður á. Samkvæmt mælingum gætu allt að 500 milljón tæki verið enn að keyra Windows 10 síðar á árinu, mörg þeirra án möguleika á uppfærslu. Þeir sem stunda innbrot í tölvukerfi leita alltaf veikustu hlekkjanna og þessi fjöldi af úreltum kerfum verður aðlaðandi skotmark fyrir árásir.“
Arnar segir að með tímanum muni annar hugbúnaður líka hætta að styðja Windows 10.
„Það getur gerst hraðar en margir gera sér grein fyrir og algengt verður að forrit hætti að virka eftir uppfærslur. Fyrirtæki sem treysta á tækniaðstoð frá Microsoft gætu einnig lent í vandræðum, því þeir samningar falla líka út þegar stuðningi lýkur.“
Arnar segir að í flestar nýlegar tölvur sé hægt að uppfæra í Windows 11. Það sé hagstæðasta leiðin og tryggi áframhaldandi öryggi og samhæfni.
„Þar sem tæki styðja ekki uppfærslu í Windows 11 er nauðsynlegt að fara í útskipti á vélbúnaði. Einnig er hægt að kaupa svokallaðan ESU-samning (Extended Security Updates) frá Microsoft. Þeir tryggja áframhaldandi öryggisuppfærslur í allt að þrjú ár en aðrir gallar og önnur vandamál eru ekki löguð,“ segir hann.
„Við hjá OK ráðleggjum viðskiptavinum okkar að uppfæra í Windows 11 þar sem það er mögulegt og að endurnýja tölvur þar sem það á ekki við. ESU-samningar ættu aðeins að vera notaðir sem bráðabirgðalausn, ekki til langs tíma.“