Öryggismiðstöð Íslands hagnaðist um 529 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaður jókst um 260 milljónir króna frá fyrra ári. Rekstrartekjur námu tæplega 6,7 milljörðum króna og jukust um tæplega 1,4 milljarða milli ára. Eignir námu 2,6 milljörðum um síðustu áramót og jukust um 634 milljónir króna frá fyrra ári. Skuldir námu 1,2 milljörðum í lok síðasta árs og jukust um 106 milljónir milli ára. Þar af voru langtímaskuldir aðeins 71 milljón króna, samanborið við 219 milljónir árið áður. Eigið fé nam 1,4 milljörðum króna og jókst um 529 milljónir frá fyrra ári. Eiginfjárhlutfall var því 54%.

Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, kveðst ánægður með hve vel rekstur félagsins hefur gengið um árabil. Það hafi orðið til þess að félagið sé í dag stærsta öryggisfyrirtæki landsins. Afkoma síðustu tveggja ára sé sérlega ánægjuleg, í ljósi þeirra áskorana sem Covid-19 heimsfaraldurinn hafði í för með sér. „Þegar Covid skall á vorum við með á annað hundrað starfsmenn á Keflavíkurflugvelli að vinna í verkefnum fyrir flugfélögin sem fljúga til Bandaríkjanna. Eftir að faraldurinn skall á var landamærum Bandaríkjanna aftur á móti lokað og starfsmennirnir í Leifsstöð sátu því upp verkefnalausir.“

Ragnar segir Öryggismiðstöðina leggja áherslu á að sjá tækifærin í áskorunum og því hafi aldrei komið til greina að leggja árar í bát. „Við áttuðum okkur á því að vegna veirunnar væri líklegt að komið yrði upp eftirliti og sýnatökum á landamærum og vorum búin að undirbúa okkur til að geta stigið inn í slíkt verkefni. Við vorum því fengin til að sinna sýnatöku og eftirliti á Keflavíkurflugvelli og þar með voru starfsmennirnir þar komnir með nýtt verkefni. Þetta verkefni gekk svo vel að við fórum með heilsugæslunni í að koma upp sýnatökum í Orkuhúsinu. Svo vildum við einnig hafa möguleika á að koma upp eigin sýnatökum og náðum að láta það verða að veruleika með því að hefja samstarf við Sameind um að koma upp sýnatökustöðum á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ragnar og bætir við að þetta sé skólabókardæmi um að þegar einar dyr lokist opnist aðrar.

Fanga kjarna félagsins

Öryggismiðstöðin hlaut fyrr á þessu ári Þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga. Ragnar er mjög stoltur af þessum verðlaunum, þar sem hann segir verðlaunin fanga kjarnann í því sem Öryggismiðstöðin standi fyrir.

„Við viljum alltaf vera á hreyfingu, leitum stöðugt leiða til að nýta okkar styrkleika og höfum þörf fyrir að vera sífellt að koma fram með nýjar lausnir til að bæta líf fólks. Félagið var stofnað fyrir nærri þrjátíu árum sem, eins og nafnið gefur til kynna, öryggisfyrirtæki. Fyrir um það bil áratug síðan áttuðum við okkur á styrkleikum félagsins sem eru þeir að við erum alltaf á vaktinni allan sólarhringinn alla daga. Auk þess erum við með mjög öflugt tæknisvið.“ Því hafi stjórnendur ákveðið að hætta að einblína á að Öryggismiðstöðin væri bara öryggisfyrirtæki. „Við ákváðum í stað þess að einblína á það forskot sem það að vera alltaf á vaktinni, auk þess að vera með tæknisvið sem getur gert nánast allt, veitir okkur. Við ákváðum þar af leiðandi að fjárfesta meira í nýsköpun. Það fólst þó ekki í því að þróa lausnir frá grunni innanhúss heldur erum við sífellt vakandi fyrir öflugum samstarfsaðilum erlendis sem hafa gert góða hluti og freistum þess að færa þeirra lausnir inn á íslenska markaðinn.

Gullmolar leynast út um allt

Ragnar segir styrk félagsins ekki síður felast í starfsfólkinu. „Í stjórnendateymi félagsins, sem inniheldur á annan tug einstaklinga, gegna aðeins þrír því starfi sem þeir voru upphaflega ráðnir í. Aðrir stjórnendur hafa vaxið og þroskast með fyrirtækinu. Það leynast gullmolar út um allt innan félagsins og við erum með nokkra stjórnendur sem hófu störf í öryggisgæslunni. Þetta fólk veit nákvæmlega fyrir hvað Öryggismiðstöðin stendur og skilur hvernig við hugsum hlutina. Það er mjög mikilvægt, bæði fyrir félagið sjálft og starfsfólkið, að fólk hafi möguleika á að þróast í starfi innan félagsins.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.