Hlutabréfaverð Alvotech hefur hækkað um 4,6% í fyrstu viðskiptum frá opnun markaða í dag og stendur í 1.140 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Líftæknilyfjafyrirtækið birti árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung í gærkvöldi.

Félagið greindi frá því að tekjur af sölu lyfja námu 204,7 milljónum dala á fyrri helmingi ársins, sem er yfir 200% aukning frá sama tíma­bili í fyrra (65,9 milljónir dala).

Rekstrarhagnaður félagsins var 28,6 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins, samanborið við 43,4 milljónir dollara á sama tíma í fyrra. Félagið rekur mismuninn einkum til hærri tekna af leyfisgreiðslum á fyrri helmingi síðasta árs en á móti komi auknar tekjur af vörusölu á lykilmörkuðum á fyrri hluta þessa árs.

Bókfærður hagnaður á fyrri helmingi ársins nemur 141,7 milljónum dollara, eða 0,50 dollurum á hlut.