Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,6% í 2,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf vaxtarfélaganna Alvotech og Amaroq leiddu lækkanir en félögin birtu bæði árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða í gær.

Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði um ríflega 4% strax við opnun Kauphallarinnar í morgun en fór svo sígandi með deginum og hafði við lokun Kauphallarinnar í dag lækkað um 7,8% frá gærdeginum. Gengi Alvotech stendur nú í 1.005 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í lok apríl. Gengi Alvotech er 43% lægra en í upphafi árs.

Þess má geta að Alvotech sótti sér ríflega 10 milljarða króna í nýtt hlutafé á útgáfuverinu 1.320,83 krónur í byrjun júní. Núverandi markaðsgengi Alvotech er 24% undri útgáfuverðinu.

Félagið greindi frá því í gærkvöldi að tekjur af sölu lyfja námu 204,7 milljónum dala á fyrri helmingi ársins, sem er yfir 200% aukning frá sama tímabili í fyrra (65,9 milljónir dala).

Rekstrarhagnaður félagsins var 28,6 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins, samanborið við 43,4 milljónir dollara á sama tíma í fyrra. Félagið rekur mismuninn einkum til hærri tekna af leyfisgreiðslum á fyrri helmingi síðasta árs en á móti komi auknar tekjur af vörusölu á lykilmörkuðum á fyrri hluta þessa árs.

Hlutabréfaverð Amaroq féll um 4,8% í 122 milljóna veltu í dag og stendur nú í 118,5 krónum á hlut. Til samanburðar lauk Amaroq 7,6 milljarða króna hlutafjáraukningu í júní síðastliðnum þar sem útgáfuverðið var 144 krónur á hlut eða 17,8% undir núverandi markaðsgengi.

Málmleitarfélagið Amaroq greindi í morgun frá því að félagið hefði velt 3,4 milljónum Kanadadollara á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur ríflega 300 milljónum króna. Um er að ræða fyrstu tekjur félagsins af gullframleiðslu.

Amaroq, sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænland, segist nú stefna á framleiðslu á um 5 þúsund únsum af gulli á árinu 2025. Félagið hafði áður gefið út að stefnt yrði að gullframleiðslu á bilinu 5-20 þúsund únsa í ár.

Hlutabréfaverð Kviku banka, sem skilaði uppgjör eftir lokun markaða í gær, lækkaði um 2,2% í 270 milljóna veltu og stendur nú í 18,1 krónu á hlut. Auk Alvotech og Amaroq lækkaði gengi hlutabréfa Play, Oculis, Festi og Kviku um meira en 2% í dag.