Ís­lenska málm­leitarfélagið Amaroq Minerals til­kynnti fyrir opnun markaða í morgun að fyrsta fram­leiðsla og steypa á gulli ætti sér stað í Nalunaq gullnámunni í gær.

Á miðviku­daginn fékk félagið endan­legt leyfi frá stjórn­völdum í Græn­landi fyrir gang­setningu á 1. áfanga vinnslu­stöðvar félagsins, sem hefur síðan starfað á fullum af­köstum.

Fyrsta steypan á gulli átti sér stað í gær, þar sem fram­leitt var 1,2 kílógramm af gulli (39 troy-únsur) eftir að vinnsla hafði staðið yfir í 10 klukku­stundir.

„Ég vil þakka sam­starfs­fólki mínu og teyminu á staðnum, sem unnið hefur sleitu­laust við upp­byggingu og nú gang­setningu til að skila fyrsta gulli á réttum tíma, sam­hliða því að viðhalda góðum árangri í öryggis­málum. Þetta er mikið af­rek fyrir Amaroq og sam­starfsaðila okkar.

Fyrsta fram­leiðsla á gulli í Nalunaq er stór áfangi í okkar veg­ferð, sér í lagi þar sem náman mun nú hefja tekju­myndun. Eftir því sem náman færist úr fjár­festingarfasa yfir í rekstur munu áherslur okkar snúa að því að auka við gull­magn og þar með líftíma námunnar, sem og áfram­haldandi rannsóknir til að raun­gera enn frekar virði eigna­safns okkar í Græn­landi.

Í gegnum þetta ferli höfum við lagt áherslu á að fram­kvæma verk­efnið á sjálf­bæran máta í nánu sam­starfi við inn­lent sam­félag og viljum sér­stak­lega þakka græn­lenskum stjórn­völdum, nær­sam­félaginu og hlut­höfum okkar fyrir áfram­haldandi stuðning,”segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals.

Félagið mun halda áfram að stilla af og besta fram­leiðslu­ferla í vinnslu­stöðinni í kjölfar gang­setningar og stefnir á viku­lega steypun á gulli.

Sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu er áætlað að ljúka næsta áfanga vinnslu­stöðvarinnar, upp­setningu á flotrás (e. flota­tion circuit), á öðrum árs­fjórðungi 2025.

Félagið stefnir á að auka fram­leiðslu upp í stöðug, full af­köst á 4. árs­fjórðungi 2025, þar sem unnin verða 260-300 tonn á dag af efni með áætluðum 12-16 g/t af gull­styrk­leika.