Íslenska málmleitarfélagið Amaroq Minerals tilkynnti fyrir opnun markaða í morgun að fyrsta framleiðsla og steypa á gulli ætti sér stað í Nalunaq gullnámunni í gær.
Á miðvikudaginn fékk félagið endanlegt leyfi frá stjórnvöldum í Grænlandi fyrir gangsetningu á 1. áfanga vinnslustöðvar félagsins, sem hefur síðan starfað á fullum afköstum.
Fyrsta steypan á gulli átti sér stað í gær, þar sem framleitt var 1,2 kílógramm af gulli (39 troy-únsur) eftir að vinnsla hafði staðið yfir í 10 klukkustundir.
„Ég vil þakka samstarfsfólki mínu og teyminu á staðnum, sem unnið hefur sleitulaust við uppbyggingu og nú gangsetningu til að skila fyrsta gulli á réttum tíma, samhliða því að viðhalda góðum árangri í öryggismálum. Þetta er mikið afrek fyrir Amaroq og samstarfsaðila okkar.
Fyrsta framleiðsla á gulli í Nalunaq er stór áfangi í okkar vegferð, sér í lagi þar sem náman mun nú hefja tekjumyndun. Eftir því sem náman færist úr fjárfestingarfasa yfir í rekstur munu áherslur okkar snúa að því að auka við gullmagn og þar með líftíma námunnar, sem og áframhaldandi rannsóknir til að raungera enn frekar virði eignasafns okkar í Grænlandi.
Í gegnum þetta ferli höfum við lagt áherslu á að framkvæma verkefnið á sjálfbæran máta í nánu samstarfi við innlent samfélag og viljum sérstaklega þakka grænlenskum stjórnvöldum, nærsamfélaginu og hluthöfum okkar fyrir áframhaldandi stuðning,”segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals.
Félagið mun halda áfram að stilla af og besta framleiðsluferla í vinnslustöðinni í kjölfar gangsetningar og stefnir á vikulega steypun á gulli.
Samkvæmt kauphallartilkynningu er áætlað að ljúka næsta áfanga vinnslustöðvarinnar, uppsetningu á flotrás (e. flotation circuit), á öðrum ársfjórðungi 2025.
Félagið stefnir á að auka framleiðslu upp í stöðug, full afköst á 4. ársfjórðungi 2025, þar sem unnin verða 260-300 tonn á dag af efni með áætluðum 12-16 g/t af gullstyrkleika.