Amazon hefur gert samning við Volvo Trucks um kaup á tuttugu rafknúnum þungaflutningabílum sem afhentir verða í Þýskalandi í lok árs. Nýju vörubílarnir koma í stað dísilbíla hjá Amazon.

Vörubílarnir eru af gerðinni Volvo FH Electric og er áætlað að þeir muni aka meira en eina milljón kílómetra árlega. Bílarnir eru með allt að 300 km. drægni.

Volvo Trucks hóf fjöldaframleiðslu á þungum rafknúnum vörubílum í september á þessu ári. Volvo Trucks stefnir að því að árið 2030 verði 50% allra seldra nýrra Volvo vörubíla knúnir hreinu rafmagni frá rafhlöðu eða með vetni í gegnum efnarafal. Þessir rafknúnu þungaflutningabílar eru allt að 44 tonn að heildarþyngd.

„Á heimsvísu bjóðum við nú sex rafbílagerðir tilbúnar til pöntunar og fjöldaframleiðslu til að mæta aukinni eftirspurn eftir kolefnislausum vöruflutningum. Þetta er hvetjandi skref fram á við til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga,“ segir Jessica Sandström, framkvæmdastjóri vörustjórnunar hjá Volvo Trucks.