Vekra ehf. hefur undirritað samning um sölu á öllu hlutafé í Bílaumboðinu Öskju, Unu, Dekkjahöllinni og Landfara til breska bílafyrirtækisins Inchcape sem sérhæfir sig í sölu og dreifingu á bifreiðum á heimsvísu og er skráð í kauphöllina í London.

Gert er ráð fyrir að afhending félaganna fari fram í september, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Jón Trausti Ólafsson verður áfram forstjóri bílaumboðsins.

Askja er með umboð fyrir vörumerki á borð við Mercedes-Benz, smart, Honda og Kia, en Kia er söluhæsta bílategund landsins á þessu ári. Systurfélagið Una bætti á síðasta ári XPeng við vöruframboð samstæðunnar auk þess sem systurfélögin Dekkjahöllin og Landfari sinna sérhæfðri þjónustu og lausnum fyrir bílaeigendur og fyrirtæki hér á landi.

Askja var stofnuð árið 2005 og voru starfsmenn þá aðeins fimm talsins. Askja og móðurfélagið Vekra hafa vaxið hratt og markvisst á undanförnum árum og er nú orðin að öflugri samstæðu með yfir 290 starfsmenn sem starfa hjá Öskju, Unu, Dekkjahöllinni, Landfara, Hentar og bílaleigunni Lotus. Þessi þróun endurspeglar skýra framtíðarsýn, metnað og áherslu á gæði og traust í þjónustu við íslenska bílaeigendur.“

Á árunum 2021 til 2024 námu heildartekjur rekstrarfélaga Vekru um 27,5 milljörðum króna á ári að meðaltali og eru þar meðtaldar tekjur Lotus Car Rental og Hentar, sem eru ekki hluti af umræddum viðskiptum. Hagnaður fyrir skatta á sama tímabili nam að meðaltali um 1,35 milljörðum króna á ári.

Vekra mun áfram eiga bílaleiguna Lotus og einnig rúmlega 16 þúsund fermetra fasteignasafn sem byggt hefur verið upp í tengslum við rekstur félaganna.

Inchcape er alþjóðlegur dreifingar- og söluaðili bifreiða með yfir 150 ára sögu og hefur verið skráð í kauphöllina í London síðan 1958. Markaðsvirði félagsins nemur tæplega 3 milljörðum punda eða um 480 milljörðum króna.

Hjá fyrirtækinu starfa meira en 16.000 manns á 38 mörkuðum um allan heim. Heildartekjur Inchcape á síðasta ári námu um 10 milljörðum evra og hagnaður félagsins fyrir skatta var um 480 milljónir evra.

Kaup Inchcape á Öskju eru sögð vera í samræmi við Accelerate+ stefnu Inchcape, sem miðar að því að vaxa inn á nýja og áhugaverða markaði þar sem miklir möguleikar eru fyrir hendi.

„Ísland er afar álitlegur kostur til þess að styrkja stöðu félagsins á Norðurlöndunum og í Norður-Evrópu. Inchcape vinnur með mörgum af helstu bifreiðamerkjum heims og með kaupunum á Öskju verður Kia í fyrsta sinn hluti af vöruframboði félagsins.“

Hjörleifur: Vorum ekki í söluhugleiðingum

Feier ehf., félag í eigu hjónanna Hjörleifs Þórs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg, er stærsti hluthafi Vekru með 53,92% hlut. F.Bergsson Eignarhaldsfélag er næst stærsti hluthafi Vekra með 22,93% hlut en umrætt félag er í eigu Frosta Bergssonar fjárfestis.

Franska félagið Groupe Comte-Serres á 10,78% hlut í Vekru. Þá á Hvítárhlíð, félag Jóns Trausta Ólafssonar, forstjóra Vekru og Öskju, og eiginkonu hans Eddu Bjarkar Kristjánsdóttur, 7,8% hlut. Hrókur eignarhaldsfélag, félag í eigu Andra og Darra Egilssona og Egils Ágústssonar, á 2,82% hlut. Loks á franska félagið Fonciere Marie Louie SAS 1,74% hlut.

„Við erum stolt af því að hafa mótað farsælt fyrirtæki á Íslandi þar sem afburða hópur starfsmanna hefur þróað sterk viðskiptasambönd við nokkra af öflugustu bílaframleiðendum heims og byggt upp sterka markaðsstöðu hér á landi sem og framúrskarandi þjónustu sem tekið er eftir,“ segir Hjörleifur Jakobsson, stjórnarformaður Vekru.

Við vorum ekki í neinum söluhugleiðingum en þegar Inchcape hafði samband við okkur á síðasta ári þá sáum við strax að þetta væri áhugaverður kaupandi sem kæmi með reynslu og mikil sambönd að borðinu til að þróa fyrirtækið frekar, auk þess sem það gæfi starfsmönnum ákveðin tækifæri að starfa í stóru alþjóðlegu fyrirtæki. Við kveðjum með góðum minningum og erum bjartsýn á framtíð þessara fyrirtækja.“

„Þetta hefur verið einstök vegferð og hér verða kaflaskil þar sem við göngum til liðs við öflugt alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur gott orðspor og vinnur á fjölbreyttum mörkuðum. Við göngum inn í verkefnið með það að markmiði að leggja okkar þekkingu og öflugu menningu inn í samstarfið en einnig til að þróa félögin enn frekar á íslenskum bílamarkaði,“ segir Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju.

„Ég er afar stoltur af þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá Öskju og systurfélögum með einstökum stuðningi fráfarandi eigenda sem nær yfir tvo áratugi. Það er nákvæmlega sú uppbygging og umgjörð sem Inchcape finnst falla vel að sinni vegferð jafnframt sem þeim finnst Ísland vera spennandi markaður, ég er spenntur fyrir því að leiða félögin áfram með nýjum eiganda og starfsfólki Öskju.“

„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna kaupin á Öskju og tengdum rekstri, sem fellur einstaklega vel að stefnu Inchcape. Rekstur Öskju og félaga innan samstæðunnar hefur verið afar árangursríkur, félagið er með sterka markaðsstöðu á Íslandi, fjölbreytt úrval vörumerkja og afburða gott starfsfólk,“ segir Duncan Tait, forstjóri Inchcape Group.

„Ísland er nýr og áhugaverður markaður fyrir Inchcape og býður upp á spennandi tækifæri til að styrkja stöðu okkar í Evrópu enn frekar. Þessi kaup okkar á Öskju endurspegla vel hvernig við hjá Inchcape innleiðum og framfylgjum stefnu okkar, sem við köllum Accelerate+, um landfræðilega útbreiðslu og vali á nýjum samstarfsaðilum sem og hvernig við eflum enn frekar samstarf við núverandi samstarfsaðila og bílaframleiðendur. Með því að sameina mikla sérþekkingu og afburða reynslu Öskju á íslenska markaðnum við tæknilega forystu Inchcape á alþjóðavísu munu þessi kaup auka verðmæti fyrir félagið, hluthafa okkar og viðskiptavini okkar Íslandi.“