Átta frambjóðendur hafa gefið kost á sér til stjórnar Sýnar fyrir hluthafafund fjarskiptafélagins sem fer fram á fimmtudaginn næsta, 20. október. Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar. Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið tilkynnti fyrr í vikunni að margfeldiskosning verði viðhöfð á fundinum.
Af átta frambjóðendum sitja fjórir í stjórn félagsins en stjórnarformaðurinn Petrea I. Guðmundsdóttir tilkynnti á fimmtudaginn að hún myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs.
Frambjóðendur eru eftirtaldir:
- Jóhann Hjartarson, varaformaður stjórnar
- Páll Gíslason, stjórnarmaður
- Sesselía Birgisdóttir, stjórnarmaður
- Jón Skaftason, stjórnarmaður
- Rannveig Eir Einarsdóttir
- Hákon Stefánsson
- Helen Neely
- Sigmar Páll Jónsson
Um er að ræða annan hluthafafund Sýnar innan tveggja mánaða. Í lok ágúst fór fram hluthafafundur með stjórnarkjöri að beiðni fjárfestingarfélagsins Gavia Invest, sem varð stærsti hluthafi félagsins í júlí eftir að hafa keypt allan hlut Heiðars Guðjónssonar, fyrrum forstjóra Sýnar.
Jón Skaptason, forsvarsmaður Gavia, náði kjöri í stjórnina. Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo og stærsti hluthafi Gavia, náði hins vegar ekki kjöri. Reynir gefur ekki kost á sér að þessu sinni en Hákon Stefánsson, sem starfaði með honum hjá Creditinfo og gegnir stöðu framkvæmdastjóra InfoCapital, fjárfestingarfélags Reynis, býður sig nú fram til stjórnar Sýnar.
Meðal annarra frambjóðenda er Rannveig Eir Einarsdóttir, sem á byggingafyrirtækið Reir Verk með eiginmanni sínum Hilmari Þór Kristinssyni. Hjónin eiga félagið Fasta sem eignaðist 7,7% hlut í Sýn í sumar. Hilmar Þór bauð sig fram til stjórnar Sýnar á hluthafafundi félagsins í lok ágúst en náði ekki kjöri.
Helen Neely, sem hefur unnið lengi í byggingariðnaði og sat m.a. í stjórn Kaldalóns í þrjú ár, gefur kost á sér. Sigmar Páll Jónsson lögmaður býður sig einnig fram.