Í umsögn Samtaka atvinnulífsins við fjárlagafrumvarpið kemur fram að fjölgun starfandi á opinberum vinnumarkaði sé að mestu varanleg og ekki heimsfaraldri um að kenna.
Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins, segir samtökin telja aukið aðhald í ríkisrekstri vera jákvætt, en hafi áhyggjur af því að það muni aukast minna en gert hafi verið ráð fyrir þegar fjármálaáætlun var samþykkt síðastliðið vor, þrátt fyrir minna atvinnuleysi og meiri verðbólgu. Hvort tveggja kalli í raun á meira aðhald hins opinbera að öllu jöfnu.
„Ein ástæðan fyrir minna aðhaldi er að launakostnaður er að aukast mikið eða um 6,9% á næsta ári sem er meira en fæst staðist til lengdar. Þetta kemur ofan í launahækkanir á opinbera markaðnum sem hafa verið langt umfram almenna markaðinn og mikla fjölgun opinberra starfa. Niðurstaðan er enda sú að ekkert OECD ríki ver hærra hlutfalli verðmætasköpunar í laun og launatengd gjöld opinberra starfsmanna og á síðustu árum hefur þetta hlutfall hvergi hækkað meira en hér á landi,“ segir Konráð.
Samhliða þessari þróun hafi fyrirtæki á almenna markaðnum sífellt meira talað um það á síðustu misserum að þau geti ekki keppt við hið opinbera í kjörum. Margir bendi á að laun á almenna markaðnum séu víða hærri en hjá hinu opinbera en í því samhengi gleymist oft að horfa til þess að starfsvernd, orlof og önnur kjör séu mun hagfelldari á opinbera markaðnum, sem veki upp nokkrar spurningar.
„Maður veltir t.d. fyrir sér hvort einhverjum sé greiði gerður með því að það sé erfitt að segja upp opinberum starfsmönnum því rannsóknir benda til þess að slík vernd hafi ekki áhrif á atvinnuleysi. Raunar er hægt að færa rök fyrir því að slík vernd dragi úr möguleikum á að para vinnuveitendur og starfsfólk með sem hagfelldustum hætti, sem hlýtur að vera slæmt fyrir báða aðila. Bæði hvað varðar rekstur stofnana en líka til að starfsfólk fái sín notið sem best.“
Fréttin er huti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 13. október.