Eftirspurn eftir ársmiðum á Santiago Bernabeu, heimavöll Real Madrid sem tekur um áttatíu þúsund manns í sæti, er mun meiri en framboð.
Ársmiðaskortinn hyggst Real Madrid m.a. leysa með samstarfi við Apple um þróun á einstakri upplifun í gegnum Apple Vision Pro, sýndarveruleikagleraugu Apple.
Kallast upplifunin „Infinite Santiago Bernabeu,“ en Florentino Pérez, forseti Real Madrid, hefur staðfest að þetta séu áætlanir félagsins. Upplifunin miðar að því að stuðningsmenn félagsins geti horft á leiki heima hjá sér, en á sama tíma liðið eins og þeir séu staddir á vellinum.
Gert er ráð fyrir að þróun á upplifuninni muni taka talsverðan tíma, en Pérez segist bjartsýnn að samkomulag náist á milli Apple og Real Madrid.