Bjarni Ármannsson hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni nýs dóms Hæstaréttar þar sem niðurstaðan varð að sakfelling hans fyrir meiriháttar skattalagabrot árið 2014 stendur ekki lengur. Mál hans var endurupptekið með úrskurði Endurupptökudóms í ársbyrjun og vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar í gær.
Í yfirlýsingunni segir Bjarna sakarskrá sína loks hafa verið hreinsaða. Dómurinn staðfesti það að honum hefði verið gerð tvöföld refsing, fyrst í skattamáli sem gert hafi verið upp að fullu og síðan í refsimáli vegna sömu mistaka við gerð skattframtala. „Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að sú málsmeðferð gengi í berhögg við Mannréttindasáttmála Evrópu og hefur Hæstiréttur nú staðfest það,“ segir í yfirlýsingunni.
Bjarni kveðst fagna þessari niðurstöðu og því að réttlætið hafi sigrað að lokum. „Það hlýtur hins vegar að teljast umhugsunarefni að opinbera kerfið hafi með öllum tiltækum ráðum eytt meira en áratug í afneitun sinni á hinu augljósa.“
Yfirlýsing Bjarna í heild sinni:
Með úrskurði Hæstaréttar í gær (nr. 21/2022) var sakaskrá mín loksins hreinsuð. Dómurinn staðfesti það að mér hefði verið gerð tvöföld refsing, fyrst í skattamáli sem gert var upp að fullu og síðan í refsimáli vegna sömu mistaka við gerð skattframtala. Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að sú málsmeðferð gengi í berhögg við Mannréttindasáttmála Evrópu og hefur Hæstiréttur nú staðfest það. Ég fagna þessari niðurstöðu og því að réttlætið hafi sigrað að lokum. Það hlýtur hins vegar að teljast umhugsunarefni að opinbera kerfið hafi með öllum tiltækum ráðum eytt meira en áratug í afneitun sinni á hinu augljósa.