Félagið Bananalýðveldið ehf., sem er í eigu skemmtikraftsins og athafnamannsins Björns Braga Arnarssonar, skilaði 82 milljóna króna hagnaði árið 2021 samanborið við 2 milljóna tap árið áður. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Hagnaðinn má einkum rekja til útgáfufélagsins Fulls tungls, sem gefur út Kviss-spilin og vinsælar bækur á borð við Fjárfestingar frá Fortuna Invest. Tekjur Fulls tungls námu 128 milljónum og útgáfufélagið hagnaðist um 55 milljónir í fyrra.

Björn Bragi kemur einnig að rekstri tveggja mathalla, annars vegar Borg29 í Borgartúni, sem hann á 30% hlut í og hins vegar Veru, sem opnaði nýlega í Grósku hugmyndahúsi. Heimildir Viðskiptablaðsins hermdu í sumar að Björn Bragi ætti í viðræðum um aðkomu að rekstri væntanlegrar mathallar í Turninum við hlið Smáralindar í Kópavogi.

Sjá einnig: Björn Bragi í við­ræðum um nýja mat­höll í Turninum

Eignir Bananalýðveldisins voru bókfærðar á 336 milljónir króna í lok síðasta árs samanborið við 80 milljónir í árslok 2020 en hlutafé félagsins var aukið um 200 milljónir króna í fyrra. Eigið fé Bananalýðveldisins, sem er í 100% eigu Björns Braga, nam 273 milljónum.

Bananalýðveldið og Björn Bragi komust í fréttirnar í vor þegar félagið var meðal 209 þátttakenda í lokuðu útboði Bankasýslu ríkisins á hlut í Íslandsbanka. Bananalýðveldið keypti 150 þúsund að nafnvirði í Íslandsbanka fyrir 17,6 milljónir króna samkvæmt lista sem fjármálaráðuneytið birti í kjölfar útboðsins.